Félagsmálaráð minnir á að brýn þörf er á að nýtt húsnæði sé til staðar á Akureyri þegar leiga á Kjarnalundi rennur út 2012 auk þess sem lítil herbergi á elstu deildum í Hlíð fullnægja engan veginn nútíma hjúkrunarþörfum og kröfum, segir í bókun frá fundi félagsmálaráðs í vikunni. Félags- og tryggingamálaráðherra kynnti nýverið áætlun um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma á landsvísu til ársins 2012. Í þessari áætlun er ekki reiknað með byggingu nýrra hjúkrunarrýma á Akureyri en reiknað er með endurskoðun á áætluninni árið 2009.
Á fundi félagsmálsráð fór jafnframt fram kynning á dagvist aldraðra. Dagvistarrýmum í Hlíð fjölgaði úr 13 í 17 um síðastliðin áramót, þar af eru 12 sérstaklega ætluð fólki með minnissjúkdóma. Um 45 einstaklingar nýta sér þjónustuna í Hlíð ár hvert. Starfsemin flyst þessa dagana í nýendurgert húsnæði í Hlíð og verður mjög vel að dagvistinni búið á nýjum stað. Auk þess hafa verið ráðnir starfsmenn með sérmenntun í þjónustu við fólk með minnissjúkdóma.