15. október, 2010 - 09:24
Fréttir
Rekstrarniðurstaða Búseta á Norðurlandi fyrir árið 2009 einkennist af því efnahagsástandi sem ríkir. Hagnaður fyrir
fjármagnsgjöld var 140 milljónir, en áfallnar verðbætur og niðurfærsla eigna námu tæplega 700 milljónum og félagið var
því gert upp með tapi upp á 548 milljónir. Unnið er að því með lánardrottnum að ná fram endurskipulagningu skulda
með það að markmiði að treysta rekstur félagsins og viðunandi verðlagningu fyrir búsetana.
Íbúðalánasjóður veitti félaginu svigrúm til viðbragða með tímabundinnu frystingu hluta af lánum. Til að mæta
efnahagssamdrætti eftir hrun var mánaðargjald fryst í fyrstu og síðan lækkað og brugðist sérstaklega við aðstæðum
þeirra sem misst höfðu vinnu eða orðið fyrir tekjuskerðingu. Þær aðgerðir hafa skilað árangri, þannig að engin
íbúð félagsins á Akureyri stendur auð og eftirspurn er eftir íbúðum Búseta. Aðalfundur Búseta á Norðurlandi
var haldinn 13. október sl. Á fundinn mættu tæplega 40 félagsmenn. Félagið á og rekur 234 íbúðir á Akureyri og
Húsavík. Félagið er sjálfstætt húsnæðisamvinnufélag í eigu allra félagsmanna.
Eftirfarandi tillaga var samþykkt á fundinum
- Aðalfundur Búseta á Norðurlandi haldinn 13. október 2010 skorar á stjórnvöld að efla Íbúðalánasjóð til
að takast á við nauðsynlega endurskipulagningu á húsnæðiskerfi landsmanna. Fundurinn fagnar því að almennur skilningur virðist vera
að skapast á því að sjálfseignarstefna í íbúðarhúsnæði gengur ekki upp í þeim mæli sem hún hefur
verið rekin hér á landi.
- Fundurinn lýsir stuðningi við áform ríkisstjórnarinnar um að efla leigumarkað og styrkja fjárhagsgrunn
húsnæðissamvinnufélaga.
- Búseti á Norðurlandi getur lagt að mörkum til að auka framboð af hagkvæmu húsnæði á NA-landi og styrkja um leið rekstur
félagsins.
- Fundurinn hvetur til þess að húsaleigubætur og vaxtabætur verði samhæfðar þannig að tekið verði mið af tekjum og framfærslu
allra sem njóta aðstoðar á húsnæðismarkaði.
- Aðalfundur Búseta á Norðurlandi áréttar vilja félagsins til að eiga aðild að víðtæku samstarfi við
sveitarfélög og önnur stjórnvöld og félagasamtök um hagkvæmara og öflugra húsnæðiskerfi til framtíðar.
Stjórn félagsins skipa Guðlaug Kristinsdóttir formaður, Ingvar Björnsson varaformaður, Helgi Már Barðason, Ingi Rúnar Eðvarðsson,
Stefán Einar Jónsson. Varastjórn skipa Tómas Sævarsson, Hermann Árnason, Hildur Eir Bolladóttir, Sigríður
María Bragadóttir og Guðbjörn Þorsteinsson,