Tæplega 50 þúsund manns komið í Hlíðarfjall í vetur

Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Hlíðarfjall það sem af er vetri. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður Skíðasvæðisins sagðist mjög ánægður með veturinn. "Veturinn var mjög góður og stóðst væntingar og það má sjá stíganda í fjölda gesta ár frá ári," sagði Guðmundur. Um 49 þúsund manns hafa heimsótt fjallið í vetur og er veturinn einn sá besti frá árinu 2002. Guðmundur segir snjóblásarana í fjallinu breyta miklu frá því sem áður var. Gervisnjórinn geri mikið gagn og það flýti fyrir opnunartíma vetrarins að geta nýtt sé þessa nýjung í stað þess að bíða eftir því að það snjói heilu sköflunum. Lokað verður í Hlíðarfjalli um helgina en opnað aftur um Hvítasunnuhelgina. "Það er mestur vindur úr fólki eftir Andrés Andar leikanna og því er lokað núna um helgina en við höfum opið um Hvítasunnuna og hugsanlega verður það síðasta helgin sem verður opinn í vetur," sagði Guðmundur.

Nýjast