Sýslumaður segir löggæslu á Akureyri í ágætu horfi

"Við teljum að löggæsla á Akureyri sé í ágætu horfi en því er ekki að neita að við myndum gjarnan vilja hafa úr dálitlum meiru að spila.  Það er hins vegar rangt að ástandið sé með þeim hætti hér í bænum að í óefni horfi," segir Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður.  

Hjalti Jón Sveinsson bæjarfulltrúi telur að efla þurfi löggæslu á Akureyri.  Hann telur að  lögreglan hafi ekki nægilegt bolmagn til að sinna löggæslu í bænum sem skyldi, m.a. vegna þess að mannekla hái starfseminni. Sýslumaður segir fullyrðingar um að jafnmargir lögreglumenn séu nú starfandi í bænum og var fyrir 30 árum ekki réttar.  "Það er bara bull," segir hann, þeir séu fleiri nú en var þá.  Nefnir hann t.d. að í þá daga hafi ekki verið sérstök rannsóknadeild starfandi innan lögreglunnar eins og nú en í þeirri deild starfi 4-5 lögreglumenn.  Þá séu 4 sérsveitarmenn starfandi á Akureyri og margt annað hafi breyst varðandi innra skipulag og vinnufyrirkomulag.

Björn Jósef segir afstætt hvað séu nægir peningar til löggæslumála.  Embættið hafi ákveðna fjárhæð til ráðstöfunar, spurningin sé hvernig henni er ráðstafað.  Telji menn að ákveðnir málaflokkar líði fyrir fjármagnsskort megi skoða hvort verið sé að forgangsraða á rangan hátt.  "Menn verða ævinlega að spyrja sig hvernig eigi að forgangsraða hlutunum.

"Við höfum gott lögreglulið á Akureyri, það er allt mannað menntuðum lögreglumönnum, fíkniefnahundurinn hér er sérlega góður en eðli málsins samkvæmt fylgir hann húsbónda sínum á vaktir.  Almennt má segja að við höfum yfir að ráða góðum mannafla og fjármagn sem nægir til að halda úti öllu hefðbundnu eftirliti, en auðvitað neitum við því ekki að gott væri að hafa úr meiri mannskap að ráða," segir Björn Jósef.

Nýjast