03. mars, 2008 - 17:52
Fréttir
Þrátt fyrir að Bæjarstjórn Akureyrar hafi hafnað beiðni um viðræður um efnistökumál í Eyjafjarðará, telur
sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar mjög brýnt að slíkar viðræður fari fram og felur sveitarstjóra að koma því
sjónarmiði á framfæri. Þetta kemur fram í bókun á síðasta fundi sveitarstjórnar. Bjarni Kristjánsson sveitarstjóri
Eyjafjarðarsveitar leitaði á dögunum eftir viðræðum við Akureyrarbæ um efnisnám og efnistöku í tengslum við lengingu
Akureyrarflugvallar. Bæjarráð vísaði erindinu til skipulagsnefndar en niðurstaða hennar var að taka ekki efnislega afstöðu til erindis
Eyjafjarðarsveitar, "enda ekki á dagskrá svo vitað sé við þá framkvæmd né að til standi að breyta um stefnu varðandi
efnistöku," segir m.a. í bókun skipulagsnefndar.
Í erindi Eyjafjarðarsveitar var leitað eftir áliti skipulagsnefndar og bæjaryfirvalda á Akureyri varðandi efnistöku úr Leirum og farvegi
Eyjafjarðarár. Í bókun skipulagsnefndar segir að umrætt svæði sé ekki skilgreint efnistökusvæði í aðalskipulagi eða
deiliskipulagi sveitarfélaganna. Fyrir liggi ákvörðun varðandi lengingu Akureyrarflugvallar þar sem framkvæmdaaðilar hafa lagt upp það verklag
að nota aðflutt efni í flugbrautarlengingu. Skipulagsnefnd Akureyrar hefur svarað erindi frá Skipulagsstofnun þar sem óskað er eftir áliti á
því verklagi og hvort Akureyrarbær telji ástæðu til að verkið þurfi að fara í umhverfismat. Svar skipulagsnefndar Akureyrar varðandi
það atriði var að ekki þyrfti að fara með þessa framkvæmd í farveg umhverfismats og nú hefur Skipulagstofnun kveðið upp
úrskurð samhljóða því áliti sem skipulagsnefnd Akureyrar gaf. Það er því niðurstaða skipulagsnefndar Akureyrar að taka
ekki efnislega afstöðu til erindis Eyjafjarðarsveitar um hugsanlega efnistöku á Leirunum enda ekki á dagskrá svo vitað sé við þá
framkvæmd né að til standi að breyta um stefnu varðandi efnistöku. Slíkt mundi seinka þessu máli um mjög langan tíma auk þess sem
ekki er hægt að ganga út frá því sem vísu að efnistaka á þessum stöðum yrði heimiluð. Ef framkvæmdaaðilar leita
eftir slíku áliti og falla frá ákvörðun um efnisval kemur til kasta bæjaryfirvalda á Akureyri að taka afstöðu til að breyta
skipulagi á umræddum svæðum, segir ennfremur í bókun skipulagsnefndar.