Sveitarstjórn aðstoðar við kaup á flygli í Laugarborg

Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar í vikunni var tekið fyrir erindi frá Tónvinafélagi Laugarborgar þar sem óskað er eftir stuðningi og þátttöku sveitarfélagsins í kaupum á flygli í Laugarborg.  Í erindinu kemur fram að félagið telur sig hafa fundið hentugt hljóðfæri  og er kaupverðið 9,6 milljónir króna.   

Oddviti lagði fram tillögu um að orðið yrði við erindinu og Tónvinafélaginu lánað fyrir 50% af kaupverði eða 4,8 milljónir króna.  Erindi Tónvinafélagsins var samþykkt með 4 atkvæðum enda liggi fyrir hvernig félagið hyggist fjármagna og endurgreiða lánið. Þrír fulltrúar F-listans voru á móti afgreiðslunni og lögðu fram eftirfarandi bókun.

"F-listinn hafnar beiðni Tónvinafélagsins og tekur undir afstöðu menningarmálanefndar sem telur ekki tímabært að taka ákvörðun um kaup á hljóðfæri þar sem stefnumótunarvinnu fyrir Laugarborg er ekki lokið.  Þá bendir F-listinn á að Tónvinafélagið hefur ekki lagt fyrir sveitarstjórn neina áætlun né gögn um hvernig það ætli að afla þeirra 5 milljóna króna sem sveitarfélagið lánar þeim. Það er skoðun fulltrúa F-listans að afgreiðsla meirihluta sveitarstjórnar á þessu máli sé óábyrg hvað varðar fjármuni sveitarfélagsins."
   

Um miðjan ágúst sl. var Steinway flygillinn, eða Ingimarsflygillinn, svokallaði fluttur úr Laugarborg, þar sem hann hafði verið undanfarin ár, í Menningarhúsið Hof.

Nýjast