Sveinbjörn Pétursson var hetja Akureyrar í kvöld sem lagði HK að velli, 32:31, í mögnuðum handboltaleik í Íþróttahöll Akureyrar í N1-deild karla í handbolta. HK-menn áttu síðustu sóknina í leiknum og hefðu getað jafnað metin í 32:32. Þegar fjórar sekúndur voru eftir fengu gestirnir aukakast, boltinn barst til Daníels Bergs Grétarssonar sem hefði getað stolið öðru stiginu fyrir Kópavogsbúa
Vörn Akureyrar varði hins vegar og Sveinbjörn í kjölfarið og allt ætlaði hreinlega um koll að keyra í Íþróttahöllinni og fögnuður heimamanna gríðarlegur í leikslok.
Það var mögnuð stemmning í Höllinni í kvöld en áhorfendur voru alls 1250 talsins. Jafnt var á tölum á upphafsmínútunum allt fram að stöðunni 3:3. Akureyri náði þá þriggja marka forystu, 6:3, og komst í 10:6 eftir tíu mínútna leik. HK-menn tóku leikhlé og náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 13:12. Þá kom góður kafli hjá norðanmönnum sem skoruðu fimm mörk á móti tveimur frá HK og höfðu fjögurra marka forystu í hálfleik, 18:14.
Akureyri náði fimm marka forystu, 19:14, í upphafi seinni hálfleiks. Norðanmenn náðu ekki að hrista spræka HK-menn af sér sem náðu að jafna í 25:25 um miðjan hálfleikinn og komust svo marki yfir, 26:25, í fyrsta skiptið í leiknum. HK náði svo tveggja marka forystu, 27:29, og virtist sem lukkan væri að fara snúast Kópavogsbúum í hag. Bjarki Már Elísson var illviðráðanlegur í sókn HK en hann skoraði alls 12 mörk í leiknum.
Akureyringar voru þó ekki á því að fara tapa fyrsta leiknum í vetur á heimavelli fyrir troðfullri Höllinni og jöfnuðu í 31:31 og andrúmsloftið gjörsamlega rafmagnað. Heimamenn fengu víti þegar tvær mínútur voru eftir og Bjarni Fritzson fór svellkaldur á vítapunktinn og skoraði og Akureyri marki yfir.
Sveinbjörn Pétursson var svo hetja Akureyringa í kvöld er hann varði vel í tvígang í restina, fyrst frá Ólafi Bjarki Ragnarssyni þegar mínúta var eftir og svo frá Daníel Berg Grétarssyni á síðustu sekúndu leiksins.Akureyri fagnaði því sigri við mikinn fögnuð áhorfenda sem hlupu inn á völlinn og fögnuðu með leikmönnunum.
Akureyri er því enn ósigrað með fullt hús stiga í deildinni en liðið hefur fjögurra stiga forystu á toppnum með 16 stig. HK hefur 12 stig í öðru sæti.
Mörk Akureyrar: Heimir Örn Árnason 8, Bjarni Fritzson 7 (3 úr víti), Guðmundur Hólmar Helgason 6, Oddur Gretarsson 4, Geir Guðmundsson 3, Guðlaugur Arnarsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 2.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17, Stefán Guðnason 3.
Mörk HK: Bjarki Már Elíasson 12 (2 úr víti), Atli Ævar Ingólfsson 9, Daníel Berg Grétarsson 4, Ólafur Bjarki Ragnarsson 3, Hörður Másson 2, Hákon Hermansson Bridde. 1
Varin skot: Björn Ingi Friðþjófsson 11.