Sveinbjörn: Getum bætt okkur heilmikið

Sveinbjörn Pétursson átti góðan dag í marki Akureyrar og varði 24 skot í 34:29 sigri norðanmanna gegn Selfossi í N1-deild karla í handbolta á heimavelli í kvöld. Sveinbjörn var þó ekkert alltof sáttur við sína frammistöðu í leikslok. „Það eru sumir hlutir sem ég hefði viljað gera betur í kvöld en þetta slapp til. Ég er ekki alveg sáttur en sigurinn náðist sem var fyrir öllu,” sagði Sveinbjörn, sem hefur oft spilað með betri vörn fyrir framan sig í vetur en í kvöld. 

„Vörnin var ekki alveg að finna sig í fyrri hálfleik, sérstaklega gegn Ragnari (Jóhannssyni) sem var gríðarlega öflugur. Svo skánaði vörnin strax þegar við bökkuðum í 6-0 vörn. Svona heilt yfir er maður sáttur við stigin tvö en það er heilmikið sem við gætum bætt. Það er hins vegar jákvætt við okkar spilamennsku að þó við séum ekki að toppa á öllum sviðum að þá erum við að ná sigri. “

Það vakti athygli að Selfyssingar beittu maður á mann vörn strax í upphafi seinni hálfleiks. Sveinbjörn segir það ekki hafa komið sérstaklega á óvart. 

„Þjálfari Selfyssinga er þekktur fyrir að taka sjensa og er óhræddur við að gera tilraunir. Þetta sló okkur svolítið en við tókum æfingu í gær þar sem við æfðum þetta og mér fannst við ná að leysa þetta þokkalega. Þeir gerðu þetta líka gegn Haukum á síðustu helgi en við leystum þetta og skoruðum nokkur mörk úr þessu.”

Selfyssingar stóðu lengi vel í Akureyrarmönnum og það var ekki fyrr en í lok leiksins sem norðanmenn náðu að hrista þá af sér.

„Þeir eru þekktir fyrir að gefast aldrei upp og keyra allan leikinn. Þetta er fínasta lið og strákarnir hafa spilað lengi saman og Basti (Sebastian Alexenderson) er að gera fína hluti með þá. Við vissum að þó að við myndum vera að leiða með fimm mörkum eða tapa með fimm myndu þeir keyra á okkur allan tímann,” sagði Sveinbjörn Pétursson.

Nýjast