Svavar Knútur og Aðalsteinn Ásberg á Græna hattinum

Í kvöld, þriðjudagskvöldið 28. október, halda þeir Svavar Knútur trúbador og Aðalsteinn Ásberg, skáld og tónsmiður, tónleika á Græna hattinum þar sem þeir flytja frumsamið efni í tónum og tali. Efnisskrá kvöldsins hjá þeim félögum verður fjölbreytt og skemmtileg.  

Yrkisefnin snúast gjarnan um hina mannlegu tilveru, hamingjuleitina og fleira í þeim dúr og moll. Þeir félagar munu leitast við að draga fram ljós, von, bjartsýni og hlýju nú þegar dagurinn styttist og þörf er á birtu og yl.  Svavar Knútur er forsprakki hljómsveitarinnar Hrauns, en hefur sem trúbador einnig ferðast víða og verið í samstarfi við trúbadora víða um heim. Aðalsteinn Ásberg hefur um langt árabil starfað með ýmsum tónlistarmönnum, bæði hérlendis og á Norðurlöndum. Húsið opnar kl.20.00 og hefst dagskráin kl.21.00. Aðgangseyrir er kr.1000 og er miðasala við innganginn.

Þá er hafin forsala í Pennanum Hafnarstræti á tónleika LayLow, sem haldnir verða á fimmtudagskvöld. Sprengjuhöllin verður svo tónleika á Græna hattinum nk. föstudagskvöld og Bubbi Morthens á laugardagskvöld.

Nýjast