Svarthvít sveifla - með litaívafi í Ketilhúsinu

Jóhann Ingimarsson, eða Nói eins og hann er jafnan nefndur, og tengdasonur hans, Kristján Eldjárn, opna á morgun, laugardag, málverkasýningu í Ketilhúsinu á Akureyri. Sýningin ber yfirskriftina Svarthvít sveifla - með litaívafi. Þar sýna þeir tengdafeðgar á þriðja tuga verka, unnin með blandaðri tækni, akríl- og olíulitum. Sýningin verður opnuð kl. 15.00.  

Nói var á árum áður einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar og starfaði við hönnun, framleiðslu og sölu húsgagna nær allan sinn starfsaldur. Hann hefur ávallt verið mjög virkur í listsköpun sinni. Til marks um það má nefna að enginn listamaður á fleiri útilistaverk vítt og breitt um Akureyri en Nói. Þá hefur hann haldið fjölmargar sýningar á málverkum og þrívíddarverkum, bæði einkasýningar og með þátttöku í samsýningum. Kristján Eldjárn hefur haldið fjölmargar sýningar á málverkum sínum, bæði hér á landi og erlendis. Að auki hefur hann tekið þátt í mörgum samsýningum með öðrum listamönnum. Sýningin í Ketilhúsinu er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 13:00-17:00 og stendur til 6. júní.

Nýjast