Stórvirkið Íslandsklukkan sýnt í Hofi á Akureyri

Þjóðleikhúsið heldur norður yfir heiðar og sýnir sjálft stórvirkið Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxnes, í Hofi á Akureyri helgina 19.-21. nóvember. Verkið var frumsýnt sl. vor, í tilefni af 60 ára afmæli Þjóðleikhússins. Sýningin fékk frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda og var sýnd fyrir fullu húsi fram á sumar.  

Sýningin fékk 11 tilnefningar til Grímunnar, m.a. sem sýning ársins, og hlaut fern Grímuverðlaun. Ingvar E. Sigurðsson hlaut Grímuna fyrir túlkun sína á Jóni Hreggviðssyni og Björn Thors hlaut Grímuna fyrir leik sinn í hlutverki Magnúsar í Bræðratungu. Einnig fengu höfundar tónlistar og búninga sýningarinnar Grímuna en um tónlistina sjá þeir félagar í Hundur í óskilum.

Verkið var fyrst sett á svið þegar Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 og svipmiklar aðalpersónur verksins, Jón Hreggviðsson, Snæfríður Íslandssól og Arnas Arnæus, hafa eignast vissan stað í hjarta Íslendinga. Í því þjóðfélagslega umróti sem við lifum nú, á þetta stórvirki um tilvistarspurningar sem lítil þjóð stendur frammi fyrir brýnt erindi við okkur. Herdís Þorvaldsdóttir lék hlutverk Snæfríðar í opnunarsýningu Þjóðleikhússins árið 1950. Nú í 60 ára afmælissýningunni er Herdís enn að leika í Íslandsklukkunni.

Nýjast