Stórafmæli hjá Leikfélagi Akureyrar sem frumsýnir 300. sýningu sína

Leikfélag Akureyrar var stofnað árið 1917 og þann 13. október nk. verður frumsýnd 300. sýning félagsins. Það er því vel við hæfi að frumsýna klassískan gamanleik eftir Nóbelsverðlaunahafann Harold Pinter í tilefni dagsins. Verkið heitir Þögli þjónninn og verður sýnt í Rýminu.  

Höfundurinn Harold Pinter hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2005. Leikverkið á 50 ára afmæli um þessar mundir en það var upprunalega sýnt í Hampsted Theater í London árið 1960. Þögli þjónninn fjallar um tvo menn sem eru í dularfullum erindagjörðum þriðja aðila og eru báðir í ákveðinni tilvistarkreppu í starfi. Þetta er gaman-drama leikrit og ættu allir að geta haft gaman af persónum og söguþræði verksins. Þögli þjónninn sló í gegn bæði á Broadway og West End og var verkið sýnt lengi á báðum stöðum,  sem er sjaldgæft með  drama-gaman sýningu. Leikritið hefur  haft mikil áhrif á kvikmyndaheiminn, þannig eru aðalpersónurnar í Pulp Fiction, sem Samuel L. Jackson og John Travolta léku svo eftirminnilega, byggðar á persónum úr Þögla þjóninum, sem og persónur í myndinni  In Bruges, sem skartaði m.a. Colin Farrel og Ralph Fiennes í aðalhlutverkum.

Leikarar í Þögli þjónninn eru Atli Þór Albertsson og Guðmundur Ólafsson, en báðir leika þeir í Rocky Horror um þessar mundir. Leikstjóri verksins er Jón Gunnar Þórðarson en hann er einnig leikstjóri Rocky Horror sem Leikfélagið sýnir í Hofi. Jón Gunnar kynntist höfundi verksins persónulega í námi sínu í London og ber honum góða sögu. „Pinter var leikari og leikstjóri og þekkti því leikhúsið vel. Þess vegna eru verk hans eins vel skrifuð og spennandi og raun ber vitni,"  segir Jón Gunnar og bætir við að verk eftir sama höfund, Svik var sýnt árið 2004 hjá Leikfélagi Akureyrar.

Uppselt er á fyrstu sýningar á Þögli Þjónninn, en hægt er að nálgast miða á heimasíðu LA http://vikudagur.is/www.leikfelag.is og í símum 4 600 200 og 450 1000 milli kl. 13-19. Þýðandi: Gunnar Þorsteinsson, Ljósahönnun: Lárus H. Sveinsson, Útfærsla leikmyndar og smíði: Bjarki Árnason og Dýri B. Hreiðarsson, Leikmyndamálun: Steingrímur Þorvaldsson, Búningar: Leikhópurinn.

Nýjast