Íbúar í þessu raðhúsi og fleirum við Melateig, hafa ekki átt sjö dagana sæla frá því að þeir fluttu inn í hús sín. Þeir hafa þurft að búa við mikinn hávaða frá stórum vörubílum, dráttarvélum og fleiri tækjum, sem aka um Mýrarveg, m.a. til og frá Naustahverfi en gatan liggur rétt við húsin í Melateig. "Það þýðir ekkert að ræða þessi mál við bæjaryfirvöld og ég get alveg eins reynt að tala við húsvegginn. Þannig hafa viðbrögðin verið á þeim bænum. Það lifnaði aðeins yfir þessari umræðu fyrir síðustu kosningar og þá lofuðu m.a. Kristján Þór (Júlíusson) og Hermann Jón (Tómasson) að það yrði tekið á þessu máli. Það hefur hins vegar ekkert gerst," sagði Bjarni.
Sigríður Sigurðardóttir, sem býr í næsta húsi við Bjarna sagði ástandið gjörsamlega óþolandi. Hún væri ýmsu von eftir að hafa búið í Þórunnarstræti en ástandið þarna væri miklu verra. Hún þarf m.a. að láta aldraðan og sjúkan eiginmann sinn sofa í geymslunni, því hann getur ekki sofið í svefnhergi þeirra hjóna fyrir hávaða frá götunni. "Hér er hvínandi hávaði allan sólarhringinn, frá alls kyns ökutækjum og það er ekkert gamanmál að vera sífellt að hringja í lögregluna," sagði Sigríður. Hún sagði að núverandi bæjarstjóri Sigrún Björk Jakobsdóttir hefði tjáð sér að loka ætti Mýrarveginum á þessum kafla þegar Miðhúsabrautin hefur verið lögð. Sigríður vonast til að það gangi eftir. Bjarni sagði að umferð bíla yfir 12 tonn væri bönnuð um Mýrarveginn frá kl. 22 á kvöldin til 08 að morgni virka daga, svo og um helgar. Hann sagði að menn gerðu lítið með þetta, þeir væru byrjaðir keyra þarna um kl. 07.30 og jafnvel á laugardögum.