Stofnfjáreigendur Sparisjóðs Svarfdæla eru 150 talsins, 90 í Svarfaðardal og á Dalvík, 30 á Árskógsströnd og 30 í Hrísey. Af þeim eru um eitt hundrað félagar í Samtökum stofnfjáreigenda. Í árslok 2007 var ákveðið að tillögu stjórnar á almennum félagsfundi að hækka stofnfé sjóðsins um 500 milljónir króna áður en honum yrði breytt í hlutafélag. Stofnfjáreigendur lögðu í því skyni aukið stofnfé til sjóðsins og var hlutur hvers og eins að jafnaði um 3,7 milljónir króna sem yrði síðan hlutur viðkomandi í nýju hlutafélagi og frjáls til ráðstöfunar eins og hvert annað hlutafé. Einhverjir áttu í handraðanum fyrir sínum hlut en en flestir tóku lán hjá Saga Capital (nú Saga Fjárfestingarbanki) til að fjármagna stofnfjáraukninguna og voru þau lán að stórum hluta í erlendri mynt.
Stofnun hlutafélags var frestað vegna breytts efnahagsástands og þegar fjármálakerfið hrundi í september 2008 sátu stofnfjáreigendur uppi með stökkbreytt lán sem síðan hafa farið hækkandi. Sparisjóður Svarfdæla kom aftur á móti laskaður undan hruni sem leiddi til þess að í sumar var ákveðið á félagsfundi að eignarhlutur stofnfjáreigenda yrði færður niður í 10% en ríkið tæki yfir 90%. Hversu hár hlutur hvers stofnfjáreigenda er nú í krónum talið er ekki ljóst en klárlega er hann sáralítill. Höfuðstóll hvers einstaks láns sem var 3,7 milljónir kóna við lántöku er nú um 8 milljónir króna. Það þýðir að heildarskuldir rúmlega 100 stofnfjáreigenda eru nú á bilinu 700-800 milljónir króna. Dómur Hæstaréttar varðandi gengistryggð lán mun væntanlega lækka þessa tölu nokkuð, jafnvel niður í 5 milljónir króna. Þetta kemur fram í blaðinu Norðurslóð.