Hann segir að unnið hafi verið í fjárfestingar- og rekstraráætlun sem miði við stækkun um 30-50% á árunum 2013-2016, en að þær áætlanir hafi ekki verið ræddar við, né samþykktar af hluthöfum. "Pólítískur óstöðugleiki og yfirvofandi óvissa um skattlagningu á iðnað og orkunotendur er ekki hvati til ákvarðanatöku og frekari fjárfestinga á Íslandi eins og er. Becromal Iceland á í viðræðum við Landsnet og orkuframleiðendur vegna hugsanlegrar stækkunar."
Í verksmiðju Becromal í Krossanesi eru 40 vélar af 60 nú komnar í gang. Af þessum 40 vélum eru 12 vélar sem voru fluttar notaðar frá Noregi og breytt. Þar af var 10 breytt á Ítalíu og tveimur var breytt hjá Slippnum Akureyri undir stjórn Becromal Iceland, að sögn Gauta. "Þessar 60 vélar verða ekki allar komnar í gang fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári, samkvæmt þeirri áætlun sem nú liggur fyrir. Eins og er, þá eru 6 vélar í uppsetningu og 46 vélar eru því komnar í hús. Þær vélar sem settar hafa verið upp undanfarið (síðustu 26 vélar) og þær sem á eftir að setja upp, koma allar frá verksmiðju Becromal Norway í Notodden, en sú verksmiðja verður lögð niður vegna hás kostnaðar þar, einkum orkuverðs."
Starfsmannafjöldi Becromal Iceland er nú kominn yfir 100. Að auki eru á bilinu 50-60 starfsmenn frá verktökum að vinna við uppsetningu véla og við aðrar framkvæmdir. Framleiðslan hófst sl. haust og hefur vélum fjölgað jafnt og þétt frá þeim tíma. "Við höfum framleitt yfir 100.000m² á viku og eigum að geta framleitt allt að 120.000m² við bestu aðstæður með 40 vélum," segir Gauti.
Heildarkostnaður við þá uppbyggingu sem nú er í gangi í Krossanesi er áætlaður um 10 milljarðar króna en ráðgert er að ársvelta fyrirtækisins verði um 14 milljarðar króna á ári, eða rúmur einn milljarður á mánuði. Húsnæðið sem fyrirtækið hefur yfir að ráða er samtals rúmlega 11.000 fermetrar. Þar af er verksmiðjan í um 6.000 fermetra húsnæði en annað húsnæði er undir spenna, hjálparbúnað, varmaskipta, pökkun, verkstæði, lager, rannsóknarstofu og skrifstofu.