20. febrúar, 2008 - 09:33
Fréttir
Jón Pétur Pétursson hjá JPP ehf. sem fer fyrir brotajárnsstarfsemi í Krossanesi segir að fyrirtækinu hafi verið afar vel tekið á
Akureyri. Hann sagði að fyrirtækið hefði fullan hug á því að halda áfram starfsemi á Akureyri sé það mögulegt en
frá Krossanesi verði það að fara 1. maí nk. þegar starfsleyfið þar rennur út. Fyrirtækið vinnur nú að því
að rífa gömlu Krossanesverksmiðjuna ásamt því að nokkur skip hafa verið rifin niður. Jón Pétur segir starfsemina ganga nokkuð vel
og niðurrif verksmiðjunnar sé nokkurn veginn á áætlun. Við sjálft niðurrifið vinna eingöngu erlendir starfsmenn, flestir frá
Litháen, en Íslendingar koma að ýmsum hjáverkefnum í tengslum við vinnslu og flutning hráefnisins.
Erlendu starfsmennirnir búa um borð í Margréti EA og sagði Jón Pétur þá una hag sínum vel enda er þar allt til alls. Hann
kvaðst mjög ánægður með það starf sem þeir inna af hendi, þarna fari afar duglegt og gott fólk sem hafi skilað miklu fyrir
fyritækið. Útflutningur á fullunnu efni frá Akureyri gengur ágætlega að sögn Jóns Péturs þótt snurða hafi
hlaupið á þráðinn hjá einum kaupendanna og þeir hafi orðið frá að hverfa vegna of flókinnar pappírsvinnu. Hann sagði
að til þess að starfsemi sem þessi geti gengið upp þurfi um helmingur brotajárns að koma úr landi og annar helmingur úr skipum, vildi hann
gjarnan koma því á framfæri til fólks að hráefni sé vel þegið. JPP ehf. færir á næstunni út kvíarnar til
Siglufjarðar og mun vinna þar hráefni sem hefur fallið til á staðnum. Jón Pétur sagði að langbest sé fyrir fyrirtækið að
vera á þeim stað sem hráefnið sé hverju sinni, hráefnið verði ekki flutt langar leiðir til vinnslu. Ætlunin sé í
framtíðinni að færa enn frekar út kvíarnar og vera með starfsemi eftir því sem þarf á nokkrum stöðum á landinu.
Efnið verði þá fullunnið á staðnum og mannafli verði á hverjum stað eftir þörfum.