Staða sveitarstjóra Svalbarðs- strandarhrepps auglýst laus til umsóknar

Staða sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps hefur verið auglýst laus til umsóknar. Leitað er að kraftmiklum aðila til að leiða áframhaldandi uppbyggingu samfélagsins. Krafa er gerð um að sveitarstjóri verði búsettur í sveitarfélaginu og æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf fljótlega. Árni Bjarnason, sem verið hefur sveitarstjóri á Svalbarðsströnd í nær 18 ár, lætur nú að störfum.  

„Það eru að verða 18 ár frá því ég kom hér til starfa og þetta hefur verið góður tími," segir Árni í samtali við Vikudag í dag. Því sé þó ekki að leyna að hans sögn, að liðið kjörtímabil hafi verið nokkuð erfitt, en upp hafi komið ágreiningur innan sveitarfélagsins, sem m.a. snérist um skólamál.  „Það var erfitt og það má segja að þau mál endurspeglist í úrslitum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga. Þetta varð nokkurs konar laumuleg listakosning og í sveitarfélaginu er nokkur undiralda og ósætti sem ekki er búið að greiða úr," segir Árni ennfremur.

Umsóknarfrestur um stöðu sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps er til 27. júní nk.

Nýjast