SS-Byggir í startholum varðandi byggingu fjölbýlishúsa við Undirhlíð

Beðið er eftir grænu ljósi á byggingu fjölbýlishúsa við Undirhlíð að sögn Sigurðar Sigurðssonar framkvæmdastjóra SS-Byggis, en hann segir að á sínum bæ séu menn í startholum, um leið og leyfi fæst verði hafist handa.   

"Við vonum bara að þetta gangi fljótt og vel í gegn því áhuginn er afar mikill en auðvitað er ég ekki óvanur því að bíða, hef til dæmis beðið eftir svari um hvort við fáum að byggja á þessum reit í þrjú ár," segir Sigurður. Fyrirtækið hafði áhuga fyrir að byggja tvö 7 hæða fjölbýlishús á reitnum með allt að 70 íbúðum, en heimild hefur fengist til að byggja 57 íbúðir á svæðinu.  Sigurður segir að þegar hafi 52 aðilar skráð sig fyrir íbúðum í væntanlegri byggingu en ljóst sé að eitthvað verði um afföll, einkum vegna breytinga sem gerðar hafi verið að kröfu yfirvalda og snúa að stærð íbúða.  Tiltölulega stórar íbúðir verði í húsunum, en nokkrir úr hópi þeirra kaupenda sem lýst hafa yfir áhuga vilja fremur fá litlar íbúðir.  Þá segir Sigurður að þær reglur gildi líka um kaup á íbúð í húsinu að kaupendur séu 55 ára eða eldri, í tilviki hjóna þurfi annar makinn í það minnsta að hafa náð þeim aldri.

Sorglegt að bærinn aflétti ábyrgð af lóðarhafa

Bæjarráð hefur samþykkt deiliskipulagstillögu varðandi reitinn með þeirri breytingu að lóðarhafi sé ekki aðeins ábyrgur fyrir hugsanlegu tjóni sem rekja megi til breytinga á vatnsborði á meðan á framkvæmdum stendur, heldur jafnframt þar til lokaúttekt hefur farið fram. "Við höfum ekki fundað um þetta mál þar sem við erum að bíða eftir að Skipulagsstofnun ríkisins gefi grænt ljós á gjörninginn. En persónulega finnst mér sorglegt að Akureyrarbær ætlar að aflétta ábyrgð lóðarhafa og sjá sjálfur um að bæta þann skaða sem mun eiga sér stað eftir úttekt," segir Valdimar Pálsson formaður íbúasamtakanna í Holtahverfi.  Hann bætir við að miðað við hversu fljót bæjarstjórn hafi verið að að koma málinu í gegn án þess að svara þeim spurningum sem brenna á eigendum íbúða við reitinn, "þá er ég ekki hissa á þessari afgreiðslu. Frá upphafi var ljóst að þetta mál átti að renna í gegn sama hvað tautaði og raulaði.  Ég vona bara að íbúar Akureyrar muni eftir þessu máli við næstu kosningar," segir Valdimar.

Sigurður aftur á móti telur að málið allt hafi þokast áfram á hraða snigilsins, þrjú ár séu liðin frá því hann leitaði fyrst eftir því að fá að byggja á reitnum, "en  málið velkist um í kerfinu fram og til baka, menn eru orðnir svo varkárir og mál af þessu tagi þurfa að fara fyrir alls konar nefndir og ráð áður en niðurstaða fæst," segir hann.

Nýjast