Sprenging í hundahaldi á Akureyri

Hundum hefur fjölgað mjög á Akureryi undanfarin ár, en nú eru um 530 hundar skráðir í bænum. Fyrir um áratug voru þeir um 200 talsins.  Drög að nýrri samþykkt um hundahald í sveitarfélaginu voru til umfjöllunar á fundi framkvæmdaráðs á morgun, en ýmsar breytingar eru í farvatninu frá fyrri samþykkt, m.a. að ekki verður lengur heimilt að vera með hunda á almennum samkomum í bænum.  

Bergur Þorri Benjamínsson fulltrúi hjá Akureyrarbæ sér um málefni hunda og eigenda þeirra og segir hann að umsýslan hafi vaxið í réttu hlutfalli við þá fjölgun hunda sem orðið hefur í bænum á liðnum árum.  Um 200 hundar voru á Akureyri í kringum síðustu aldamót, þeir voru svo um 300 í lok árs 2006, „en svo má segja að hafi orðið algjör sprenging, því nú eru alls um 530 hundar skráðir á Akureyri," segir Bergur Þorri.  Hann segir rýmri reglur sem settar voru árið 2001 geta átt sinn þátt í auknu hundahaldi, en áður var einungis heimilt að halda hunda ef eigendur þeirra bjuggu í einbýlishúsum, þ.e. alveg sér og út af fyrir sig.  Nú geti íbúar rað-par- og t.d. fjórbýlishúsa fengið heimild til að halda hund ef sérinngangur er í íbúðina, án leyfis annara eigenda. Um hundahald í fjölbýlishúsum gilda annars lög um fjöleignahús.

Lausaganga hunda er bönnuð í bæjarlandinu sem kunnugt er en eigendur hafa nýtt sér svonefnt hundasvæði á Blómsturvöllum skammt norðan bæjarins þar sem hundar geta verið lausir.  Nokkrar umræður hafa verið í Vikudegi að undanförnu um hundasvæðið en hundeigendum þykir að gera megi nokkra bragarbót á svæðinu, m.a. laga bílastæði, setja upp lýsingu og fleira, en sjálfir tóku þeir sig til á dögunum og reistu skýli niður við sjó.

Bergur Þorri segir að fyrir fáum árum hafi verið stefnt að því að koma upp nýju hundasvæði í námunda við Kjarnaskóg en það hafi enn ekki komist til framkvæmda þrátt fyrir háværar raddir hundaeigenda. Málið hefur komið oftar en einu sinni til umræðu í framkvæmdaráði en engin ákvörðun tekin.

Í morgun fjallaði framkvæmdaráð um drög að nýrri hundasamþykkt þar sem gerðar eru nokkrar breytingar frá eldri og núgildandi samþykkt.  Meðal þess sem þar er að finna, er bann við ákveðnum hundategundum, bann við hundahaldi í Grímsey, örmerkingu hunda og þá verður i nýju samþykktinni ákvæði um að óheimilt verður að vera með hunda á almennum samkomum, eins og 1. maí, 17. júní,  um verslunarmannahelgi og á Akureyrarvöku svo eittvað sé nefnt varðandi breytingar frá eldri samþykkt.

Nýjast