Spennandi leikár framundan í Freyvangi

Það verður líf og fjör á fjölum Freyvangs í Eyjafjarðarsveit í vetur, þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Fyrsta frumsýningin hjá Freyvangsleikhúsinu verður fimmtudaginn 30. september nk. Um er að ræða leikritið, Bannað börnum - erótísk hryllingskómedía, sem skrifað er af fjórum félögum Freyvangsleikhússins.  

Einn höfunda er Daníel Freyr Jónsson og er hann jafnframt leikstjóri. Hinir höfundarnir þrír eru Hjálmar Arinbjarnarson, Karl Pálsson og Sverrir Friðriksson. Pétur Guðjónsson upplýsingafulltrúi Freyvangsleikhússins segir að eins og nafnið gefi til kynna, sé hér um að ræða ögrandi en jafnframt kómíkst leikrit. Verkið byggir á íslenskum þjóðsögum um álfa og uppvakninga þó það gerist í nútímanum: Ungur maður hefur komist á snoðir um undarleg mannshvörf og tengir þau yfirnáttúrulegum verum sem hafa aðsetur sitt á drungalegri krá sem ber nafnið Huldusteinn. Tilraunir hans til að upplýsa málið leiða áhorfendur á spor galdra, óvætta, holdsins fýsna, mannfórna og jafnvel kölska sjálfs.

"Þetta er annað árið í röð sem Freyvangsleikhúsið fer af stað með haustverkefni.  Í fyrra var þetta tilraun, sem þótti heppnast vel og verður því haldið áfram núna. Það er ekki síst mikill áhugi og öflugt starf innan félagsins sem gerir það mögulegt að setja upp haustverkefni," segir Pétur.

Góði dátinn Svejk

Í nóvember verður svo hinn árlegi kabarett. Þar er líðandi stund í spéspegli með sérstaka áherslu á Eyjafjarðarsveit. Í febrúar er svo komið að aðaluppfærslu ársins, sem er Góði dátinn Svejk, í leikstjórn Hallmars Sigurðssonar. Þar er á ferðinni sígilt verk sem hefur þó ekki verið sett á fjalirnar í nokkur ár hér á landi. 

Þetta er stórskemmtileg saga, sem segir frá Josef Svejk ungum manni sem býr í Prag og gengur í her Austurríska-ungverska keisaradæmisins í byrjun sögunnar.  Ævintýri hans á meðan á herþjónustunni stendur í fyrri heimsstyrjöldinni eru æði mörg enda er Josef seinheppinn með eindæmum. Margir muna vel eftir sögunni; Góði dátinn Svejk, þegar hún var lesin af Gísla Halldórssyni í Útvarpinu en hefur nú verið gefin út á disk.

Mjög aðsókn á síðasta leikári

Pétur segir að síðasta leikár hafi gengið einstaklega vel hjá Freyvangsleikhúsinu. "Leikritið; Dýrin í Hálsaskógi, í leikstjórn Ingunnar Jensdóttir, sló í gegn sl. vetur. Alls komu á fjórða þúsund manns til að sjá þessa skemmtilegu uppfærslu og erum við ákaflega stolt af þeim árangri.

Í ágúst sl. sýndi félagið Vínland, eftir Helga Þórsson, í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Sú sýning var í tengslum við  leiklistarhátíðina „ART of the heart" þar sem áhugaleikfélög frá tíu löndum sýndu verk sín. Þar með hefur leikritið Vínland verið sýnt tvisvar utan Freyvangs, því sumarið 2009 var verkið flutt suður í Þjóðleikhúsið," segir Pétur.

Nýjast