Akureyri hafði frumkvæðið allan leiktímann, eftir um 15 mínutna leik hafði liðið skorað 7 mörk gegn einungis þremur frá HK. Þessi munur hélst með 1-2 marka sveiflum út hálleikinn, en í hálfleik var staðan 14-10 Akureyri í vil.
Fyrri hálfleikur var mjög góður að hálfu Akureyrar en síðari hálfleikur var einaldlega frábær hjá liðinu. Sá varnarleikur og barátta sem liðið sýndi í síðari hálfleik hefur varla sést á Akureyri síðan titlar unnust hjá félagsliðum bæjarins. HK skoraði til að mynda ekki sitt fyrsta mark í síðari hálfleik fyrr en um 10 mínútur voru liðnar af honum en þá skoruðu þeir úr víti og minnkuðu muninn í 19-11.
Hafi menn haldið að þarna hafi HK brotið ísinn þá var einfaldlega ekki svo því að eftir 15 mínútna leik var staðan 22-12 Akureyri í vil. Það er eflaust ekki oft að lið í meistaraflokki karla í handbolta skora einungis 12 mörk á 45 mínútum eins og HK gerði í þessum leik.
Það sem eftir lifði leiks jöfnuðust leikar nokkuð og liðin skiptust á að skora. Akureyri slakaði aðeins á í vörninni enda fóru leikmenn liðsins meira að huga að því að reyna að skora mörk til að skemmta sér og áhorfendum. Lokatölur urðu eins og áður sagði 30-21, frábær sigur Akureyrar.
Varnarleikur og markvarsla Akureyrar voru eins og áður sagði með eindæmum góð í leiknum og var Hafþór Einarsson klárlega besti leikmaður Akureyrar með hvorki fleiri né færri en 25 skot varin. Auk góðs varnarleiks sótti liðið hratt og það gekk oftar en ekki upp en fjölmörg marka liðsins komu úr hraðaupphlaupum eða hröðum sóknum.
Hornamaðurinn snöggi Heiðar Þór Aðalsteinsson var einn fjölmargra hjá Akureyri sem átti góðan leik og var hann mjög sáttur í leikslok. ,,Varnarleikur okkar var frábær í leiknum og klárlega það sem skóp þennan sigur auk góðrar markvörslu. Hröðu sóknirnar hjá okkur gengu ágætlega en við getum enn betur þar. Áhorfendur voru frábærir og þetta var rosalega gaman í kvöld. Mórallinn í hópnum er algjör snilld og getur örugglega ekki verið betri. Við sjálfir erum líka aldrei betri en þegar við stöndum saman og höfum jafn gaman að þessu eins og í kvöld,“ sagði Heiðar Þór sigurreifur að lokum.
Mörk Akureyrar:
Oddur Gretarsson 6, Árni Þór Sigtryggsson 5, Andri Snær Stefánsson 5, Heiðar Þór Aðalsteinsson 5, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Jónatan Magnússon 2, Þorvaldur Þorvaldsson 1, Elfar Halldórsson 1 og Rúnar Sigtrygsson 1.