Sóknarfæri fyrir Akureyri og nágrenni

Eiður Stefánsson
Eiður Stefánsson

Yfirstandandi heimsfaraldur hefur varpað ljósi á sveigjanleika skrifstofustarfa, en fjölmargir starfsmenn hafa sinnt starfi sínu heima við síðastliðið ár. Í framhaldinu vakna spurningar um framtíð þessara starfa og hvort fyrirtæki munu í auknu mæli bjóða starfsmönnun að vinna áfram heima að einhverju eða öllu leyti eftir að faraldrinum líkur. Eða það sem meira er, að auglýsa störf án staðsetningar.

Hagur fyrirtækja

En af hverju ættu fyrirtæki að taka þetta skref? Fyrir um ári tók Íslandsbanki upp nýtt fyrirkomulag sem gekk út á það að starfsmenn myndu vinna heima að jafnaði einn dag í viku. Um var að ræða tilraunaverkefni í kjölfar áhuga starfsmanna á að halda áfram fjarvinnu að einhverju leyti eftir samkomutakmarkanir. Könnun leiddi í ljós að félagsleg tengsl starfsmanna væru ágæt við fjarvinnu og að afkastageta hefði aukist í mörgum tilfellum. Þá hafði fyrirkomulagið jákvæð áhrif á kolefnisspor fyrirtækisins, en ferðir starfsfólks til og frá vinnu vógu þyngst í mælingum áður. Það er því til mikils að vinna.

Hlutverk stéttarfélaga

Það er áríðandi að skapa ramma utan um þessa þróun svo hún verði farsæl fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Hlutverk stéttarfélaga og atvinnurekenda er að tryggja viðunandi vinnuaðstöðu starfsmanna, að skil verði á milli vinnu og einkalífs og að samkomulag náist um önnur atriði er snúa að fjarvinnu, svo sem kostnað við vinnurými, tækjabúnað og fleira.

Sveigjanleiki skapar tækifæri

Í nýlegri íbúakönnun á vegum atvinnuþróunarfélaganna, landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar voru staða og mikilvægi búsetuskilyrða könnuð. Akureyri og Eyjafjörður urðu þar í öðru og þriðja sæti af 25 landsvæðum. Búsetuþættir eins og menning, aðgengi að skólum á öllum stigum, umhverfismál, vöruúrval, almenningssamgöngur, afþreying og aðgengi að nettengingu skora þar hátt, en hið síðastnefnda er einmitt ein lykilforsenda fjarvinnu.

Störf án staðsetningar skapa sveigjanleika og gerir einstaklingum kleift að velja sér búsetu eftir þáttum sem skipta hann máli utan vinnutíma. Í þessu felast fjölmörg tækifæri fyrir sveitarfélög út á landi sem nú hafa forsendur fyrir því að snúa vörn í sókn gegn landsbyggðaflótta og laða að fólk úr fjölbreyttum starfsgreinum. Það væri til að mynda hægt með því að bjóða upp á miðstöð fjarvinnu þar sem starfsmenn hafa aðgang að skrifstofum og fundarherbergjum til leigu til lengri eða skemmri tíma. Akureyri og Eyjafjörður geta nú nýtt styrkleika sína og höfðað til fólks sem starfar í fjarvinnu og sér hag sinn í því að búa á landssvæði þar sem ánægjan er mest. Tækifærin eru til staðar, það þarf bara að grípa þau.

-Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni.

 


Nýjast