Söfnunarátak líkamsræktarstöðvarinnar Átaks hefst á morgun

Fjölmargir aðilar, einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, leggja Mæðrastyrksnefnd Akureyrar lið fyrir jólin. Í þeim hópi eru starfsfólk og viðskiptavinir líkamsræktarstöðvarinnar Átaks, sem ætla að; "hreyfa sig til góðs," á morgun föstudag og á laugardag.  

Söfnunarátakið hefst á morgun kl. 16.15 en þá er frumflutningur  í Les Mills kerfunum en það eru tímar sem allir ráða við og tilvalið fyrir þá sem ekki hafa prófað að mæta. Söfnunarkassar verða til staðar á meðan að tímarnir standa yfir í þolfimisalnum. Einnig verður söfnunarkassi í afgreiðslunni fyrir þá sem fara í tækjasalinn - frjáls framlög.
Á laugardag verður dagskrá í Átaki frá kl. 9.00-16.00. Í gangi verða æfingatímar og einnig 3ja km keppni á hlaupabretti. Þeir sem vilja hlaupa tilkynna sig í afgreiðslu og þjálfari skráir tíma keppenda. Keppt verður í fjórum flokkum, keppnisgjald er 500 krónur en vinningar eru líkamsræktarkort fyrir tvo bestu tímanna í hverjum flokki.

Húsið er opið öllum Akureyringum og nærsveitamönnum sem vilja styrkja gott málefni og ekki þarf að eiga kort í stöðina meðan á söfnun stendur. Auk þess að taka þátt í söfnuninni geta þátttakendur jafnframt styrkt sig líkamlega og andlega. Öll innkoma rennur óskipt til Mæðrastyrksnefndar Akureyrar.

Nýjast