Leikir kvöldsins reyndust liðunum frá Akureyri ekki gæfuríkir í Íslandsmótunum í handbolta og körfubolta. Akureyri tapaði stórt fyrir Val í handboltanum og í körfuboltanum tapaði Þór gríðarlega mikilvægum botnbaráttuslag gegn FSu.
Akureyri Handboltafélag steinlá á útivelli gegn toppliði Vals í N1-deild karla með 21 marki gegn 32 frá heimamönnum. Jafnt var á með liðunum þar til um miðbik fyrri hálfleiks að Valsmenn hreinlega kafsigldu Akureyringa og náðu níu marka forystu í hálfleik 17-8. Seinni hálfleikur fór ekki betur af stað fyrir gestina því þegar verst lét náðu Valsmenn 15 marka forystu í stöðunni 30-15 og um 10 mínútur voru til leiksloka. Akureyringar náðu að klóra í bakkann áður en flautað var til leiksloka en töpuðu engu að síður stórt. Markahæstur Akureyringa var Andri Snær Stefánsson með 5 mörk, Árni Sigtryggsson skoraði 3, Jónatan Magnússon 3, Oddur Gretarsson 3 og aðrir minna.
Körfuboltalið Þórs atti kappi við FSu á Selfossi í Iceland Expressdeildinni í körfubolta. Heimamenn voru sterkari í fyrsta leikhluta og höfðu yfir að honum loknum 28-20. Þórsarar svöruðu fyrir sig í öðrum leikhluta og var staðan í hálfleik 48-45 FSu í vil. Í þriðja leikhluta var FSu töluvert sterkari aðilinn og lagði þar grunni að sigri sínum því eftir leikhlutan var staðan 77- 63. Þórsarar náðu örlítið að laga stöðuna í fjórða leikhluta en aldrei varð leikurinn spennandi í þeim leikhluta og FSu sigraði 94-84.
Þórsarar sitja því áfram í næst neðsta sæti deildarinnar með 8 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni. Guðmundur Jónsson var stigahæstur Þórsara með 28 stig, Konrad Tota skoraði 20 og Brandy 15 stig. Aðrir minna.