30. október - 6. nóember - Tbl 44
Skútaberg - Vonbrigði hjá Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra með ástandið á Moldhaugnahálsi
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra lýsir yfir vonbrigðum með að áform fyrirtækisins Skútabergs um tiltekt á athafnasvæði sínu á Moldhaugnahálsi hafi ekki gengið eftir.
„Heilbrigðisnefnd gerir þá kröfu að tekið verði rækilega til á svæðinu og þeim hlutum sem ekki hafa varðveislugildi verði komið í viðeigandi förgun. Jafnframt óskaði nefndin eftir skriflegri úrbótaáætlun frá fyrirtækinu, fyrir daginn í dag 1 október þar sem fram kæmi hvenær og hvernig verði orðið við kröfum nefndarinnar um úrbætur. Heilbrigðisnefnd óskað á dögunum eftir upplýsingum um hvernig framkvæmdum við tiltekt á svæðinu og gerð varanlegs geymslusvæðis miðaði. Engar upplýsingar bárust frá fyrirtækinu um framvinduna.
„Á undanförum árum hefur miklu magni af lausamunum verið safnað upp á Moldhaugnahálsi og fyrir vikið er svæðið verulegt lýti í umhverfinu. Umgengni um svæðið var til umræðu á fundi Heilbrigðisnefndar í júní og í samskiptum við fyrirtækið í aðdraganda þess fundar kom fram að til stæði að taka til á svæðinu í sumar og farga rusli og öðrum ónothæfum hlutum. Þessi áform fyrirtækisins hafa ekki gengið eftir og eru það mikil vonbrigði,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.
Lausamunir með takmarkað varðveislugildi
Hann segir það kröfu heilbrigðisnefndar að tekið verði rækilega til á svæðinu og að þeim hlutum sem ekki hafa varðveislugildi verði komið í viðeigandi förgun. „Þarna er talsvert af gömlum vinnuvélum sem munu eiga að prýða safn í framtíðinni, á svæðinu er líka mikið af lausamunum sem hafa afar takmarkað varðveislugildi. Það má líka nefna að á svæðinu hafa safnast upp fjölmargir gámar en þeir eru háðir stöðuleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt byggingarreglugerð,“ segir Leifur og að heilbrigðisnefnd hafi ekki upplýsingar um hvort slík leyfi eru til staðar varðandi gámana á Moldhaugnahálsi.
„Verði ekki orðið við kröfum Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra um skriflega úrbótaáætlun og tiltekt á svæðinu má gera ráð fyrir því að nefndin ákveði að beita þvingunarúrræðum í formi áminningar og dagsekta í þeim tilgangi að knýja fram nauðsynlegar úrbætur,“ segir hann.