Verði línan lögð mun hún skerða núverandi útivistarvæði og einnig skerða fyrirhugaða stækkun útivistarsvæðisins í Kjarnskógi. Enn fremur mun helgunarsvæði línanna ná yfir 20 hektara svæði þar sem þegar hafa verið gróðursettar um 60.000 plöntur. Nú þegar liggja þrjár háspennulínur yfir Kjarnaskóg og Naustaborgir. Þær stinga mjög í stúf við umhverfi sitt á aðalútivistarsvæði Akureyringa sem jafnframt er eitt rómaðasta útivistarsvæði landsins. Enn stærri og viðameiri mannvirki af þessu tagi eru því mörgum þyrnir í augum sem koma í Kjarnaskóg og Naustaborgir til að njóta útivistar, kyrrðar og náttúrufegurðar. Óvíst er einnig hvaða áhrif segulsvið háspennulína hefur á jurtir, dýr og menn og telur stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga óviðunandi að taka slíka áhættu og valda slíkum spjöllum á fjölsóttu útivistarsvæði. Skorar stjórnin á Landsnet að leita annara lausna við fyrirhugaðan raforkuflutning og brýnir bæjarstjórn Akureyrar að leyfa ekki lagningu línanna yfir Kjarnaskóg og Naustaborgir, segir í fréttatilkynningu frá Skógræktarfélaginu.