Skiptar skoðanir um staðsetningu á nýju hjúkrunarheimili

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun var rætt að nýju um staðsetningu á nýju hjúkrunarheimili á Akureyri en afgreiðslu málsins var frestað. Á dögunum var haldinn íbúafundur um málið og segir Oddur Helgi Halldórsson formaður bæjarráðs að fundurinn hafi verið  góður en að vissulega hafi komið fram skiptar skoðanir.  

Á fundinum var kynnt ný stefna í málefnum aldraðra, Edenstefnan, fjallað var um staðsetningu hússins og arkitek þess kynnti einnig hugmyndir sínar svo eitthvað sé nefnt en Oddur segir að fundargestir hafi einnig skipst á skoðunum og sitt sýndist hverjum. „Okkur þykir við hæfi að spyrja bæjarbúa álits í þessum efnum og gerðum það á fundinum, umræður voru jákvæðar og líflegar en auðvitað eru ekki allir á sama máli um hvar staðsetja eigi hjúkrunarheimilið," segir Oddur.  Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir að það yrði í Naustahverfi, nú er rætt um lóð við Vestursíðu og loks hafa menn nefnt Oddeyri sem ákjósanlegan stað fyrir heimilið.

Oddur segir að hugmyndin gangi út á að heimilið verði í grónu hverfi og Síðuhverfið henti ágætlega, þar sé stutt að fara á ýmsa staði, eins og í Glerárkirkju, Síðuskóla og á leikskóla í nágrenninu, einnig sé þar opið svæði eða lundur sem nýtist til útivistar, göngustígar og fleira sem hentar fyrir þá starfsemi sem í húsinu yrði.  „Þetta er heimili, ekki stofnun, við leggjum áherslu á það og því er best að koma því fyrir í grónu hverfi þar sem allt er fyrir hendi og líflegt umhverfi,"segir Oddur.

Hann segir að fleiri heimili af þessu tagi verði reist á Akureyri á næstu árum og þeim dreift um hverfi bæjarins.  Því sé ekki neitt því til fyrirstöðu að taka strax frá lóð undir slíkt heimili í Naustahverfi, sem eftir fáein ár verður orðið eitt af grónum hverfum bæjarins.

Nýjast