Skagamenn héldu sigurgöngu sinni áfram á Akureyri í kvöld

Skagamenn héldu sigurgöngu sinni áfram er þeir sóttu KA-menn heim á Akureyrarvöll í kvöld, í 1. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Lokatölur leiksins urðu 4-1, þar sem gestirnir skoruðu tvö mörk í hvorum hálfleik. Í leikhléi var staðan 2-0 Skagamönnum í vil og að auki áttu þeir tvívegis skot á stöng.  

Guðjón Heiðar Sveinsson kom Skagamönnum yfir strax á 6. mínútu og Guðjón Valur Valdimarsson bætti við öðru marki á 21. mínútu. Hjörtur Júlíus Hjartarson kom gestum í 3-0 á 52. mín en KA-menn minnkuðu muninn í 1-3 með sjálfsmarki Guðmundar Böðvars Guðmundssonar á 60. mín. KA-menn hresstust örlítið við markið en Hjörtur Júlíus bætti við sínu öðru marki og fjórða marki gestanna á 87. mínútu og gerði þar með endanlega út um leikinn. Sigur Skagamanna var sanngjarn, þeir voru mun ákveðnari í öllum sínum aðgerðum. KA-menn þurfa hins vegar að fara hugsa sinn gang en það eins og leikmenn liðsins hafi ekki næga trú á því sem þeir eru að gera. Skagamenn sitja áfram í toppsæti deildarinnar og það er ljóst að þeir ætla sér í hóp þeirra bestu strax á næsta ári. KA-menn sitja hins vegar áfram í neðri hluta deildarinnar.

Nýjast