Setur KA strik á reikninginn?

„Þetta verður verðugt verkefni og örugglega hörkuleikur. Við erum búnir að gleyma þessum Þórsleik og erum núna bara að einblína á leikinn gegn Víkingi,” segir Haukur Heiðar Hauksson bakvörðurinn sterki í liði KA. Þeir gulklæddu eiga erfitt verkefni fyrir höndum í dag er topplið 1. deildarinnar, Víkingur R., kemur í heimsókn á Akureyrararvöll kl. 14:00 á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Það verður vængbrotið lið KA sem mætir til leiks í dag en fjórir lykilmenn liðsins verða í banni. Þetta eru þeir David Disztl, Dean Martin, Janez Vrenko og Guðmundur Óli Steingrímsson.

Þegar tvær umferðir eru eftir situr KA í áttunda sæti deildarinnar með 24 stig. Víkingur trónir hins vegar á toppnum með 42 stig og er í harðri baráttu við Leikni R. og Þór um sæti í úrvalsdeildinni að ári. KA getur því sett stórt strik í reikninginn í baráttu þessara þriggja liða, nái liðið stigi eða stigum gegn Víkingi og um leið verið örlagavaldur Þórs um sæti í efstu deild.

Þór sækir HK heim á sama tíma í dag og verður hreinlega að vinna til þess að halda í við toppliðin tvö, en Þórsarar eru í þriðja sæti fyrir umferðina í dag, tveimur stigum á eftir Víkingi og Leikni. Leiknir sækir Fjarðabyggð heim í dag.

Nýjast