Settu upp skýli á hundasvæðinu

Hópur hundaeigenda á Akureyri kom á dögunum upp góðu skýli á svonefndu Hundasvæði norðan Akureyrar.   Á svæðið kemur daglega fjöldi fólks að viðra hunda sína, en þar er oft ansi napurt, enda ekkert skjól fyrir norðanáttinni.
„Þessi hugmynd kviknaði, við fórum á stúfana og fundum efni, fluttum það hingað og settu upp,“ segir Jón Björnsson einn þeirra sem fyrir framkvæmdinni  stóð.   Í skjólinu  var svo komið fyrir bekkjum og borði úr kefli.  „Það er sífelldur næðingur þarna niður við sjóinn og þar höfum við noprað löngum stundum á meðan hundarnir hlaupa,“  bætir hann við.

Hópurinn sem stóð að gerð skýlisins segir að aðbúnaður á hundasvæðinu sé afskaplega slæmur, þar sé nákvæmlega ekki neitt.  Það hafi kostað margra mánaða ströggl við Akureyrarbæ að fá einn bekk sem er efst á svæðinu.  Nauðsynlegt sé að bæta úr, efst á óskalistanum og það sem brýnast sé er að koma upp salernum á svæðinu og rennandi vatni svo hægt sé að skola af hundunum áður en haldið er heim á leið.  Þá benda hundaeigendur á að girðingar séu mjög lélegar umhverfis svæðið, túnið sé ekki slegið, en hægt væri að gera margt til bóta án þess að kosta miklu til.

Þá er bílastæðið slæmt og yfir veturinn er það ekki mokað.  Að vori þegar snjóa leysir safnast mikið vatn fyrir á því og verður það iðulega eitt drullusvað þegar snjórinn bráðnar.  Loks nefna hundaeigendur að engin lýsing sé á svæðinu sem sé mjög vont yfir vetrartímann.  „Það er fjölmargt sem  þyrfti að lagfæra en fram til þessa höfum við talað fyrir daufum eyrum,“ segir Brynjar Zóphaníasson einn hundaeigenda. 

Hundaeigendur greiða leyfisgjald að upphæð 13.500 krónur , en í reglum um hundahald á Akureyri segir að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd.  Finnst mörgum hundaeigendum að sögn þeirra sem blaðið hitti á svæðinu lítið fást fyrir aurinn.  Spjald með nafni hunds og símanúmeri eigenda  og eins hundahreinsun á ári.  Benda hundaeigendur á  að eigendur annarra dýra, m.a. katta og hesta þurfi ekki að greiða sérstakt gjald í bæjarsjóð.  „Okkur þykir við borga hátt gjald en fá litla sem enga þjónustu og þegar spurt er í hvað leyfisgjaldið fari er fátt um svör,“ segja þeir Jón og Brynjar.

Nýjast