Við sama tækifæri var opnuð sýningin Bráðnun, samsýning tíu listakvenna frá Danmörku, Íslandi og Noregi. Sýningin var sett saman í tilefni af Alþjóðlega heimskautárinu 2007, og hefur þegar verið sýnd á Grænlandi og í Danmörku. Einnig var opnuð
ljósmyndasýningin Gamla Akureyri á Ráðhústorgi, útisýning sem Hermann Arason hefur sett saman í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri. Á opnun Listasumars var m.a. boðið upp á sérátappaðar vatnsflöskur en hver flaska er og verður merkt hverjum viðburði sem Listasumar stendur fyrir í sumar. Meiningin með vatninu, fyrir utan hollustuna, er að styrkja listamenn enn frekar en Listasumar er fyrst og fremst grasrótarhátíð, þar sem upprennandi listamönnum gefst tækifæri á að stíga sín fyrstu skref án tiltekins kostnaðar. Listasumar útvegar frítt húsnæði í fjölnotahúsunum Ketilhúsinu og Deiglunni, veglega kynningu og aðstoð starfsfólks við hvern viðburð. Vatnið verður eins konar styrktarvatn sem selt verður t.d. með miða á tónleika, en tónlistarfólk fær allan aðgangseyri í sinn vasa. Starfsfólk Listasumars mun í sumar keyra um á vespu í allar sendiferðir. Er það m.a. gert til að mæta umhverfisstefnu Akureyrarbæjar auk þess að sýna frumkvæði og vera fyrirmynd í sparnaði og mengunaráhrifum.