Hjörtur Narfason, forstöðumaður BM Vallá á Norðurlandi, segir að þegar sé byrjað að flytja tæki og tól fyrirtæksins í burtu. Framtíð fyrirtækisins er þó enn óljós. „Við erum að berjast við að fá viðræður en það er voðalega erfitt að fá að tala við eitthvern sem getur sagt okkur eitthvað eða tekið einhverjar ákvarðanir. Það er hópur hér á Akureyri sem vill halda starfsseminni áfram,” segir Hjörtur. Hann segir fyrirtækið skipta miklu máli fyrir bæjarfélagið. „Möl og Sandur byrjaði hérna árið 1946 og fyrirtækið er bara orðinn hluti af sögu Akureyrar.”
Með brottfalli BM Vallá er Steypustöð Akureyrar eitt eftir sinnar tegundar á Norðurlandi og mun engin helluframleiðsla verða á Norðurlandi eystra, fari allt á versta veg. Hjörtur segir að það muni skýrast um miðja næstu viku um hver framtíð fyrirtækisins verður. „Þá gætu línur verið farnar að skýrast um hvort hægt sé að endurreisa eitthvað hérna og starta framleiðslu aftur eða hvort það verði flutt allt í burtu og bara lokað og læst. Við krossum bara fingur,” segir Hjörtur.