„Við eigum möguleika á að koma okkur aftur í annað sætið og ætlum okkur klárlega að gera það,” segir Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs. „Þetta er ennþá í okkar höndum og við getum ekki treyst á aðra endalaust. Við höfum og munum nýta þessa viku til þess að safna andlegum og líkamlegum kröftum fyrir leikinn og ég er sannfærður um sigur í leiknum.”
Þeir Atli Jens Albertsson og Jóhann Helgi Hannesson, markahæsti leikmaður Þórs í sumar, verða í banni í leiknum gegn Leikni og er það stórt skarð í liði Þórs. „Þetta er hins vegar hópíþrótt og það koma aðrir inn í staðinn og við eigum að ráða við svona skakkaföll, “ segir Páll. Sigursteinn Gíslason, þjálfari Leiknis, reiknar með erfiðum leik á Þórsvelli. „Þór er með hörkugott lið og hefur ekki tapað heimaleik í sumar. Þetta verður erfiður en vonandi skemmtilegur leikur. Það eru allir leikir mikilvægir en þetta er sex stiga leikur,” segir Sigursteinn.