Samtök um betri byggð vilja ræða við bæjarráð Akureyrar

Stjórn Samtaka um betri byggð, hefur óskað eftir því að fulltrúar samtakanna fái tækifæri til að kynna bæjarráðsmönnum á Akureyri tillögur samtakanna að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og tillögur að þéttri og blandaðri miðborgarbyggð í Vatnsmýri.  

Einnig vill stjórnin kynna hagrænan samanburð samtakanna á ólíkum valkostum við þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu og skyld mál. Fram kemur í erindinu að kynningin fari fram annað hvort á Akureyri eða í Reykjavík samkvæmt ósk bæjarráðsmanna og á þeim tíma, sem báðir aðilar koma sér saman um. Bæjarráð tók erindið fyrir á fundi sínum í morgun og hefur falið bæjarstjóra að hafa samband við bréfritara og koma á fundi fulltrúa bæjarráðs og samtakanna.

Samtökin um betri byggð, eru á móti því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Bæjarráð Akureyrar hefur ítrekað sent frá sér yfirlýsingar, nú síðast í byrjun síðasta mánaðar, þar sem minnt er á þá ábyrgð og skyldur sem höfuðborg landsins ber gagnvart landsmönnum öllum. Að mati bæjarráðs eru greiðar flugsamgöngur landsbyggðarinnar til Reykjavíkur forsenda þess að borgin geti gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg landsins alls. Einnig hefur bæjarráð minnt á að ef innanlandsflugvöllur verði fluttur úr miðborginni sé verið að takmarka aðgengi landsbyggðarfólks að miðstöð stjórnsýslu, þjónustu, viðskipta og ekki síst Landspítala háskólasjúkrahúsi með því að lengja ferðatíma til borgarinnar.

Nýjast