Fram kom í skýrslu stjórnar á aðalfundinum að nú séu kaflaskil í sögu Greiðrar leiðar. Félagið var stofnað fyrir röskum fimm árum til þess að vinna að undirbúningi að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, annast gerð þeirra og reka þau. Að stofnun Greiðrar leiðar stóðu sveitarfélög beggja vegna Vaðlaheiðar og fyrirtæki. Í dag eru 25 hluthafar í félaginu.
Í upphaflegum samþykktum Greiðrar leiðar var gert ráð fyrir að félagið myndi undirbúa gerð ganganna og standa fyrir gerð þeirra. Ljóst var á síðasta ári að það gæti ekki gengið eftir þegar fyrir lá að bjóða yrði út sérleyfi til að standa fyrir framkvæmdum og rekstri ganganna. Í framhaldinu gerði Alþingi samþykkt um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Í viðauka við samgönguáætlun 2007-2010, sem var samþykktur á Alþingi 29. maí sl., segir eftirfarandi um Vaðlaheiðargöng:
„Gert er ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði byggð í einkaframkvæmd með veggjöldum. Göngin verði þó fjármögnuð af hálfu af ríkissjóði með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár."
Fyrir liggur að rannsóknir að tilhlutan Greiðrar leiðar og niðurstöður þeirra eru grunnurinn að því að unnt er að ráðast í lokahönnun og framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, en stefnt er að því að útboðsgögn vegna framkvæmdarinnar verði tilbúin undir lok þessa árs.
Frá 2003 hefur Greið leið markvisst unnið að öllum nauðsynlegum undirbúningi að gerð Vaðlaheiðarganga og liggja nú fyrir skýrslur um niðurstöður fjölþættra rannsókna vegna gangagerðarinnar. Viðamest er jarðfræðiskýrsla frá 2007 og einnig var á síðasta ári gert mat á umferðaraukningu og Capacent gerði viðhorfskönnun vegna Vaðlaheiðarganga á Akureyri og í nágrenni og í Suður-Þingeyjarsýslu. Frá 2006 eru fyrirliggjandi skýrslur um fornleifar á Skógum í Fnjóskadal, mat á samfélagsáhrifum, umhverfismatsskýrsla og mat á þjóðhagslegri arðsemi.
Á aðalfundi Greiðrar leiðar í gær kom fram mikil ánægja hluthafa í félaginu með að nú sé fyrirsjáanlegt að ráðist verði í gerð Vaðlaheiðarganga áður en langt um líður. Grunnurinn að þessari mikilvægu framkvæmd í samgöngumálum á Norðurlandi sé ávöxtur mikillar og eindreginnar samstöðu sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu um mikilvægi Vaðlaheiðarganga.
Vegamálastjóri hefur nú skipað fjögurra manna starfshóp, sem skipaður er þremur fulltrúum frá Vegagerðinni og einum fulltrúa úr samgönguráðuneytinu, sem hefur það hlutverk að hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng. Starfshópurinn mun, í umboði Vegagerðarinnar, ganga til samninga við Greiða leið um kaup á öllum rannsóknargögnum félagsins eða öllum hlutum í félaginu, í framhaldi af áðurnefndri heimild aðalfundar Greiðrar leiðar í gær til stjórnar félagsins. Gert er ráð fyrir fyrsta fundi stýrihópsins með fulltrúum Greiðrar leiðar síðar í þessum mánuði.