Um er að ræða greiðslu vegna húsaleigu Aflsins, greiðslu fyrir þjónustu samtakanna í tengslum við samkomur á Akureyri, m.a. Bíladaga og verslunarmannahelgi, vegna þeirrar þjónustu sem Aflið býður almennt upp á og vegna fræðslu í grunnskólum. Eiríkur Björn sagði að því miður þyrfti þessi þjónusta að vera til staðar en hann vonast jafnframt til að með aukinni fræðslu dragi úr þeirri þörf.
Samningurinn er þýðingarmikill fyrir starfsemi Aflsins og fyrir bæjarbúa því hann mun efla samstarf og samskipti á milli Aflsins og stofnana Akureyrarbæjar. Starfsemin er einnig rekin af styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og félögum og ríkið hefur styrkt Aflið síðustu þrjú ár og gerir vonandi áfram. Aflið var stofnað árið 2002 og margt hefur breyst á þeim tíma, viðfangið eykst. Starfsemin er fjórþætt, einkaviðtöl, hópastarf, fræðsla og forvarnir og svo sinna starfskonur Aflsins símaþjónustu allan sólarhringinn árið um kring. Aukning hefur verið frá ári til árs, árið 2008 sýnir ársskýrsla Aflsins 94 % aukningu á einstaklingum í einkaviðtöl, árið 2009 14 % aukningu og í ár er stefnir í enn meiri aukningu á einstaklingum sem sækja sér aðstoð og stuðning í þessum málaflokki. Að mati Aflsins sýnir samningurinn við Akureyrarbæ stuðning og vilja bæjarfélagsins við þolendur og aðstandendur kynferðis- og heimilisofbeldis. Akureyrarbær er eina bæjarfélagið á landsbyggðinni sem gerir samning við starfsemi af þessu tagi.