Frá gerð stöðugleikasáttmálans hefur orðið mikið misvægi í launa- og kaupmáttarþróun milli vinnumarkaða og milli samtaka launamanna. Félög á almennum vinnumarkaði hafa öll fengið kjarabætur á tímabilinu á meðan 80% félagsmanna Kennarasambandsins hafa haft lausa samninga og 95% félagsmanna þess hafa engar launahækkanir fengið. Kennarasambandið leggur áherslu á að sjálfstæður samningsréttur félaga verði virtur í komandi kjarasamningum. Í þeirri samningagerð þarf að leiðrétta það sem aflaga hefur farið frá gerð stöðugleikasáttmálans og gæta hagsmuna félagsmanna sambandsins til jafns við aðra launamenn, segir ennfremur í yfirlýsingu KÍ.