Samherji selur Margréti EA 710 til Síldarvinnslunnar

Samherji hf. og Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hafa gert samning um kaup Síldarvinnslunnar á uppsjávarveiðiskipinu Margréti EA 710. Skipið verður afhent nýjum eiganda seinnihluta maí mánaðar.  Samherji hf. óskar Síldarvinnslunni og nýrri áhöfn velfarnaðar í rekstri skipsins. Þetta kemur fram á vef Samherja.

Skipið verður nefnt Beitir NK-123 og skipstjóri verður Sturla Þórðarson, skipstjóri á móti Sturlu verðu Hálfdán Hálfdánarson.  Sturla hefur verið skipstjóri á Berki NK.  Skipstjóri á Berki NK verður Sigurbergur Hauksson og á móti Sigurbergi verður Hjörvar Hjálmarsson en þeir hafa báðir verið skipstjórar á skipum félagsins.

Skipið hefur verið í verkefnum niður við Afríku en er væntanlegt heim í kringum hvítasunnuna og mun hefja veiðar fyrir Síldarvinnsluna fyrir mánaðarmót í norsk-íslenskri síld og makríl.

"Síldarvinnslan hf. þekkir vel til skipsins enda hefur það landað í vinnslu hjá félaginu á undanförnum árum.  Samræmast þessi kaup vel auknum áherslum félagsins á frystingu uppsjávarfiska.  Við sjáum fyrir okkur aukinn hlut uppsjávarfiska til manneldis í framtíðinni.  Fjárfestingar félagsins og uppbygging síðustu ára hafa verið til að styrkja samkeppnisstöðu okkar á frystimörkuðum.

Þessi fjárfesting Síldarvinnslunnar byggir á því að sjárvarútvegsráðherra hefur úthlutað veiðiheimildum í makríl fyrir þetta árið.  Síldarvinnslan mun reyna að hámarka verðmæti þess afla sem fyrirtækið hefur aðgang að og eru kaupin á Margréti EA liður í því," segir á vef Síldarvinnslunnar

Nýjast