Samgöngumiðstöð á Akureyrarflugvelli

Kristján Möller, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, segir að undirbúningur vegna fyrirhugaðrar stækkunar flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli og flughlaðsins við völlinn sé í fullum gangi. Hann vonast til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir strax næsta haust eða vetur.  

Kristján segir að nú sé horft til þess að á Akureyrarflugvelli verði í framtíðinni starfrækt samgöngumiðstöð, þar sem einnig verði aðstaða fyrir fólksflutningabifreiðar, strætisvagna, leigubifreiðar og fleiri. ,,Það liggur nú fyrir hversu stór viðbyggingin þarf að vera og þörfin er um 1900 fermetrar og byggingarkostnaður er áætlaður um 900 milljónir króna. Framkvæmdin hefur til þessa verið hugsuð með lánum frá lífeyrissjóðum, líkt og með Samgöngumiðstöðina í Reykjavík. Við erum hins vegar farnir að horfa á málið öðruvísi fyrir norðan, því það sýndi á dögunum þegar öllu millilandaflugi var beint til Akureyrar, að flugstöðin er of lítlil. Akureyrarflugvöllur hefur mikilvægu varaflugvallarhlutverki að gegna og því erum við farin að horfa á þetta varaflugvallargjald, sem er innheimt af öllum millilandaflugfarþegum, og hvort hægt sé að nýta hluta af því til uppbyggingar á Akureyri á móti lánum frá lífeyrissjóðunum."

Kristján segir þarna sé um að ræða blandaða leið, um helmingur kostnaðarins yrði þá fjármagnaður með lánum og um helmingur með varaflugvallargjaldi og leigu. Hann segir að hluti kostnaðarins vegna lengingar Akureyrarflugvallar hafi einmitt verið greiddur af varaflugvallargjaldinu. Það hafi líka sýnt sig að undanförnu hversu mikilvægt verkefni það var að ráðast í lengingu flugbrautarinnar á Akureyri. ,,Ég er bjartsýnn á að það takist  að þoka málinu með svona blandaðri leið og að hægt verði að hefja framkvæmdir sem allra fyrst og helst í haust eða vetur."

Ný sýn í samgöngumálum

Kristján segir að jafnframt hafi verið unnið í því að leita leiða til auka tekjurnar á Akureyrarflugvelli í framhaldi af þessum fyrirhuguðu framkvæmdum. ,,Ég átti mjög góðan fund á Akureyri um daginn, með hönnuðum og fleirum, m.a. forsvarsmönnum SBA-Norðurleiðar til þess að kanna þann möguleika að þeir kæmu inn í væntanlega aðstöðu á Akureyrarflugvelli. Í haust verða sérleiðir í almenningssamgöngum boðnar út að nýju og sjálfur get ég haft áhrif þarna á með því að hafa í útboðsgögnum að upphaf og endir á þessum sérleiðum verði á Akureyrarflugvelli, og það hyggst ég gera. Þarna yrði þá sannkölluð samgöngumiðstöð Norðurlands, þar sem færu um flugfarþegar, rútufarþegar, strætófarþegar, farþegar leigubíla og fleiri. Forsvarsmenn SBA tóku vel í þessa hugmynd, sem og Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri varðandi strætó, sem þyrfti þá ganga reglulega milli samgöngumiðstöðvarinnar og miðbæjarins. Til viðbótar þyrfti svo að ná sem mestu í ferðatengdri þjónustu inn í húsið."

Kristján segir að gangi hlutirnir eftir varðandi Samgöngumiðstöðina í Reykjavík, gætu þessar framkvæmdir norðan og sunnan heiða farið af stað á svipuðum tíma. ,,Þá gætum við verið komin í gang með tvær stórar og miklar samgöngumiðstöðvar eftir hámark tvö ár. Það yrði þá ný sýn í samgöngumálum."

Nýjast