Sala á kynjagleraugum hefur gengið vel um allt land

Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, bauð til sín ýmsum stjórum og stýrum bæjarins í gær laugardag og seldi þeim kynjagleraugun sem eru til styrktar Aflinu norðan heiða. Bæjarstjórinn á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, tilkynnti gestum að hann hafi sent öllum yfirmönnum sínum þau skilaboð að taka tillit til kvenna á Kvennafrídaginn 25. október nk. en þann dag munu konur leggja niður störf kl 14.25.

Þá keypti Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu kynjagleraugu fyrir allt starfsfólk sitt. Kynjagleraugun eru seld um allt land og rennur allur ágóðinn til baráttunnar gegn kynferðisofbeldi. Í Reykjavík rennur ágóðinn til Stígamóta og á Ísafirði til Sólstafa. Skotturnar, regnhlífasamtök ýmissa kvennasamtaka og félaga standa að söfnunni og eiga þær þakkir skilið fyrir ótrúlega vel unnin störf. Hrím hönnunarhús hannaði merkið og verður merkið til sölu í Hrím búðunum í Hofi og í Listagilinu sem og bókin góða "Á mannamáli" eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur. Merkja- og bóksalan fór mjög vel af stað um land allt og selt verður fram á síðasta dag, Kvennafrídaginn þann 25. október 2010. Aflið er með opið daglega milli 16.00 og 17.00 virka daga og hægt verður að nálgast bókina og kynjagleraugun þar.

Nýjast