Sæmdur heiðursdoktors nafnbót við hug og félagsvísindasvið HA

Á morgun fimmtudag, verður Nigel David Bankes prófessor við lagadeild Háskólans í Calgary, sæmdur heiðursdoktors nafnbót við hug og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri vegna ómetanlegs framlags síns á sviði heimskautaréttar og tengdra greina. Nigel Bankes hefur á liðnum árum getið sér orð sem einn helsti sérfræðingur á sviði alþjóðlegs umhverfis- og auðlindaréttar en hann er einnig þekktur fyrir framlag sitt á sviði mannréttinda frumbyggja.  

Nigel Bankes hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín á sviði þjóðaréttar og ber þar hæst umhverfisverðlaun Kanada 2001 sem hann hlaut fyrir framlag sitt til Stokkhólmssáttmála Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Fræðigreinar Nigel Bankes á nefndum sviðum hafa birst í virtum ritrýndum tímaritum og árið 2008 hlaut hann Harold Tidswell Teaching Excellence verðlaunin ásamt Jonnette Watson Hamilton.

Nigel Bankes átti þátt í undirbúningi meistaranáms í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri (2007) og framlag hans til hinnar árlegu Heimskautaréttarráðstefnu (Polar Law Symposium) og The Polar Law Yearboook hefur skipt miklu. Heiðursdoktorsnafnbót til handa Nigel David Bankes er þakklætisvottur fyrir framlag hans til eflingar náms í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri. Afhending nafnbótarinnar fer fram við opnun hinnar árlegu heimskautaréttarráðstefnu (Polar Law Symposium) sem að þessu sinni ber yfirskriftina Mannréttindi og stjórnfesta (Human Rights and Good Governance). Athöfnin hefst kl. 9:15 í hátíðarsal Háskólans á Akureyri (stofu N101) og mun Sigurður Kristinson forseti hug- og félagsvísindasviðs HA afhenda nafnbótina.  Allir eru hjartanlega velkomnir.

Nýjast