SA tapaði heima gegn SR

SA mætti SR um helgina í Skautahöllinni á Akureyri. Leikir þessara liða eru alltaf jafnir og spennandi og má svo sannarlega segja að þessi leikur hafi ekki verið nein  undantekning þar á en það voru SR-ingar sem höfðu sigur 5-3.

Gestirnir úr Reykjavík byrjuðu leikinn betur og höfðu yfir eftir fyrstu lotu 1-0 með marki Arnþórs Bjarnasonar. Þessi sami Arnþór kom svo SR í 2-0 í 2.lotu áður en Björn Már Jakobsson minnkaði muninn fyrir SA í 2-1. Óskar Grönhólm skoraði því næst þriðja mark SR og Andri Þór Guðlaugsson það fjórða en Jón Gíslason svaraði fyrir SA og staðan því 4-2 eftir fjöruga aðra lotu. Í þriðju lotu minnkaði Stefán Hrafnsson muninn enn frekar fyrir SA í 3-4 og mikil spenna í leiknum. SA reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna og í lokin tóku þeir áhættu með því að taka markvörð sinn útaf og setja inn sóknarmann. Það lukkaðist þó ekki betur en svo að SR skoraði síðasta mark leiksins rétt fyrir leiksloka og tryggðu sér 5-3 sigur.

Segja má að SA hafi aldrei náð sér almennilega á strik í leiknum en einnig skemmdi stórleikur markvarðar SR fyrir heimamönnum sem áttu fleiri tilraunir að marki en leikmenn SR.

Mörk/stoðsendingar SA:
Stefán Hranfsson 1/2
Björn Jakobsson 1/1
Jón B. Gíslason 1/1

Nýjast