Rúmlega 1.200 börn nýttu sér frístundakort á síðasta ári

Rúmlega 1.200 börn, á aldrinum 6-12 ára, nýttu sér frístundakort Akureyrarbæjar á síðasta ári og var kostnaður bæjarins rúmar 12 milljónir króna. Alls voru send út 1.623 bréf til foreldra barna á þessum aldri og skiluðu sér inn 1.212 bréf, að 74,7%. Þetta er aðeins betri nýting en árið 2007, að sögn Kristins Svanbergssonar deildarstjóra íþróttadeildar en þá var hún 72% og kostnaður bæjarins rúmar 11,7 milljónir króna.  

Kristinn segir að ekki sé þess að vænta að allir nýti sér frístundakortin en hann vonast þó til þess að nýtingin fari upp í 80% í framtíðinni. Frístundakortin gilda sem 10.000 króna greiðsla fyrir börn á aldrinum 6-12 ára, vegna íþróttaiðkana eða æskulýðs- og tómstundastarfs. Flest frístundakortin skiluðu sér í gegnum KA á síðasta ári, eða 260, frá Þór komu 241 kort, 199 frá Fimleikafélagi Akureyrar og í gegnum Point dansstúdíó ehf. komu 85 kort. Kristinn sagði að ekki hafi verið forsendur til að breyta upphæðinni á milli ára, sem verður áfram 10.000 krónur á barn. Þá hefur bærinn heldur ekki treyst sér til þess að hækka aldursviðmiðið. Hann sagði stefnt að því að senda út bréf til foreldra fyrir þetta ár upp úr miðjum þessum mánuði.

Kristinn segir að í  kjölfar efnhagsástandsins í landinu hafi verið leitað allra leiða til þess koma fjárhagsáætlun sveitarfélagsins heim og saman, m.a. hafi hafi verið gripið til ýmissa sparnaraðgerða hjá íþróttadeild, líkt og hjá öðrum deildum bæjarins. Hann segir að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verði lokað á þriðjudögum og að sá dagur hafi orðið fyrir valinu í samráði við Skíðafélag Akureyrar. Þetta eigi þó ekki við þegar vetrarfrí er í grunnskólum bæjarins, í páskavikunni eða í kringum Andrésar Andar leikana. Þá hefur opnunartími í fjallinu verður styttur um klukkustund um helgar og verður opið frá kl. 10-16 í stað 17. Einnig hefur gjaldskráin í Hlíðarfjalli almennt hækkað um 10% á milli ára.

"Hér er um tímabundnar aðgerðir að ræða, því við viljum að Hlíðarfjalli hafi áfram sitt aðdráttarafl. Bæjarbúar og gestir nýti sér aðstöðuna sem allra mest og að fólk komi frekar á skíði til Akureyrar en að fara erlendis. Auk þess er fjölmargt annað í boði í bænum, bæði fyrir heimamenn og gesti."

Ódýrara fyrir börnin í sund

Einnig standa fyrir breytingar á opnunartíma í sundlaugum bæjarins, auk þess sem gjaldskrá fyrir fullorðna hefur hækkað í kringum 10%. Opnunartími Sundlaugar Akureyrar verður styttur tímabundið en endanleg útfærsla þess liggur ekki fyrir, að sögn Kristins. "Til framtíðar er það vilji íþróttaráðs að börn fái frítt í sund.  Í dag kostar stakur barnamiði 100 krónur þriðja árið í röð. Tíu miða sundkort fyrir börn, 6-15 ára, hefur hins vegar lækkað um 25% á milli ára, kostar nú 600 krónur í stað 800 króna og við höfum fullan hug á að halda áfram á sömu braut."

Þá segir Kristinn að ákvörðun hafi verið tekin um að fresta framkvæmdum hjá Siglingaklúbbnum Nökkva í bili en í framkvæmdir þar voru áætlaðar 10 milljónir króna á árinu. Einnig hafa verið skornar 5 milljónir króna af stórri greiðslu til Golfklúbbs Akureyrar á árinu, í tengslum við framkvæmdir á vellinum. "Einnig er verið að fara í gegnum alla liði í rekstri íþróttamannvirkja í bænum og í rekstri íþróttadeildar, með það að markmiði að ná fram sem mestri hagræðingu í öllum þáttum." Að sögn Kristins er ráðgert að á þessu ári verði tæpum einum milljarði króna varið í þennan málaflokk eða um 13,5% af áætluðum skatttekjum Akureyrarbæjar.

Nýjast