31. maí, 2008 - 11:12
Fréttir
Um 260 nemendur sem stundað hafa jassballettnám í Point dansstúdíói munu sýna á árlegri vorsýningu skólans í
Íþróttahöllinni á Akureyri í dag, laugardaginn 31. maí kl. 18.00. Nemendurnir eru á aldrinum 4ra til 21 árs og þema
sýningarinnar er: Rokk, rokk og meira rokk.
Point dansstúdíó var stofnað á Akureyri haustið 2005. Stofnandi skólans, Sigyn Blöndal, steig sín fyrstu dansspor í
Dansstúdíói Alice árið 1987, þá fimm ára. Þaðan lá leiðin í Jazzballettskóla Báru þar sem
hún tók þátt í öllum nemendasýningum skólans frá 1990 - 2001 og fjölmörgum viðburðum sem honum tengdust,
bæði sem nemandi og kennari. Hún fékk dansaradiplóma JSB árið 2000, sama ár stundaði hún dansnám í London Studio Centre og
árið 2005 varð hún meðlimur í FÍLD, félagi íslenskra listdansara. Hún varð tvisvar Reykjavíkurmeistari í Freestyle
og einu sinni Íslandsmeistari. Hún hefur dansað á mörgum hátíðum s.s. Hlustendaverðlaunum FM og Landslagskeppninni. Dansaði
á Waldorf Astoria hótelinu í New York á alþjóðlegri Intercoiffure hárgreiðslusýningu dansverkið Vita eftir Katrínu
Ingvadóttur 2003 og dansaði á vegum bresku umboðsskrifstofunnar Élan í Laugardalshöll á 100 ára afmæli Símans. Hún var
dansari í Queen, Rolling Stones og Eurovision sýningum á Brodway og var í sýningum Dansleikhússins árin 2002 og 2003. Hún tók
þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á Evu Lunu árið 1993 og var danshöfundur í uppfærslu Kvennaskólans á Cabaret
árið 2001.Nú síðast samdi hún og stjórnaði dansatriðum í Wake me up sem hefur verið sýnt fyrir fullu húsi í
Leikhúsinu undanfarnar vikur. Haustið 2005 stofnaði hún sinn eigin danskóla á Akureyri; Point dansstúdíó, þar sem 280 nemendur stunda
nú dansnám.