Ríkið sýknað í þjóðlendumáli

Íslenska ríkið hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra, verið sýknað í þjóðlendumáli sem tengist afréttarlandi á Hólsfjöllum. Eigendur jarðanna Grímsstaða I, Grímstungu og Grímstungu 2, höfðuðu mál á hendur ríkinu og kröfðust þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar þess efnis að hluti jarðanna þriggja sé þjóðlenda.  

Eigendur jarðanna kröfuðst þess að eftirtalin úrskurðarorð yrðu felld úr gildi: „Landssvæði það sem afmarkað er hér á eftir og liggur norðaustan Grímsstaða en suðaustan „afréttarlands" á Hólsfjöllum, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Frá upptökum Ytri-Vatnsleysu beina stefnu í Selá, þar sem Fremri-Hrútá fellur í hana.  Þaðan er Selá fylgt þar til Ytri-Hrútá fellur í hana og síðan Ytri-Hrútá í Austaribrekku við Dauðagil.  Síðan eftir Dauðagili að þeim stað þar sem gilið breytir um stefnu og þaðan skemmstu leið til suðvesturáttar yfir í Ytri-Vatnsleysu.  Þá er Ytri-Vatnsleysu fylgt til áðurnefndra upptaka. Sama landsvæði er í afréttareign jarðarinnar Grímsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga."

Málkostnaður var felldur  niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 878.500 kr. Ólafur Ólafsson kvað upp dóminn.

Nýjast