Reykjavíkurflugvöllur einn af lykilþáttum í þessari bráðaþjónustu

Alls hafa verið farin yfir 260 sjúkraflug á vegum Slökkviliðs Akureyrar það sem af er ári. Í þessum ferðum hafa verið fluttir rúmlega 270 sjúklingar. "Þessi fjöldi sjúkrafluga er alveg í samræmi við fjölda ferða á sama tíma á síðasta ári. Ferðir erlendis eru heldur færri miðað við síðastliðið ár en 7 ferðir hafa verið farnar erlendis," segir Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri á Akureyri.  

Hann segir að árið í ár sé 15 starfsár liðsins í sjúkraflugi og hafa verið farin 4.317 flug á þessum árum.  "Sjúkraflugið er samstarfsverkefni þriggja aðila, Mýflug sér um flugvélakost, Slökkvilið Akureyrar útvegar sjúkraflugningamenn og Sjúkrahúsið á Akureyri útvegar lækna í flugið. Hvert og eitt flug er unnið í samstarfi við heilbrigðisstarfsmenn á viðkomandi stað og styrkur og menntun áhafnar sett saman miðað við tilfellin."  

Þorbjörn segir það alveg ljóst að sjúkraflug sé einn af mikilvægustu þáttum í sjúkraflutningaþjónustu fyrir landið allt. "Því er mikilvægi Reykjavíkurflugvallar einn af lykilþáttum í þeirri bráðaþjónustu sem sjúkraflugið er. Það er algert lykilatriði að flugvöllurnn sé í nánd við okkar stærstu sjúkrahús og flutningstími frá velli inn á spítala sé stuttur og öruggur. Stefnt er á byggingu hátæknisjúkrahúss í nálægð við núverandi flugvöll og því yrði það afar góð tenging við núverandi flugvallarsvæði. Öll umræða um að flytja Reykjavíkurflugvöll kallar þá einnig á endurskoðun á staðsetningu slíks sjúkrahúss. Umræða um að færa allt innanlandsflug til Keflavíkur kallar á endurskoðun á staðsetningu hátæknisjúkrahússins og spurning hvort ekki væri rétt að setja það þá frekar upp í Reykjanesbæ," segir Þorbjörn.

Hann segir að sjúkraflug í því formi sem Slökkvilið Akureyrar hefur verið að vinna að í rúm 14 ár sé klárlega komið til að vera. "Því þarf að tryggja að þessi nauðsynlega bráðaþjónusta nýtist öllum landsmönnum vel og gæta að þeim góðu heildrænu áhrifum sem Reykjavíkurflugvöllur á núverandi stað skapar."

Nýjast