Ein leiðin til að stoppa í það gat sé að hækka gjaldskrár bæjarins þannig að skerðing á þjónustu verði sem minnst. Fyrirliggjandi drög að breytingum á gjaldskrám færi íþróttadeildinni 17-18 milljónir króna upp í þessar 30 milljónir. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að börn á aldrinum 6-15 ára, greiði 150 krónur í sund frá næstu áramótum en þessi hópur hefur fengið frítt í sund þessu ári. Einnig geta börn á þessum aldri keypt sér árskort í sund, fyrir 1.000 krónur, samkvæmt fyrirliggjandi drögum.
Miðað við þau drög sem fyrir liggja, er m.a. verið að hækka tímaleigu í íþróttahúsum bæjarins, að Boganum undanskildum, þar sem tímaleigan er óbreytt. Það verður dýrara að fara á skíði í Hlíðarfjalli og enn stendur til að bjóða fjórum saman mun lægra verð á vetrarkortum en ef einstaklingur kaupir sér vetrarkort. Ef fjórir fullorðnir kaupa saman vetrarkort í Hlíðarfjall, kostar það 22.000 krónur pr. mann en einstaklingur þarf að greiða 28.000 krónur fyrir sitt vetrarkort.
Nokkur gagnrýni hefur komið fram á þetta kerfi að fjórir saman geti keypt árskort á mun hagstæðara verði en einstaklingur. Nói segir að með þessu sé einfaldlega verið að sækja meiri tekjur. "Þetta kerfi hefur verið í gangi í nokkur ár og sala árskorta margfaldaðist þegar það var tekið upp. Þá má einnig geta þess að við opnum á þann möguleika að einstaklingar geti keypt stakt árskort á lægra verðinu, tímabundið t.d. í október og nóvember," segir Nói.