Páskaævintýri á Akureyri fram á annan í páskum

Páskaævintýri á Akureyri hefst í dag og stendur fram á annan í páskum. Boðið verður upp á fjölda viðburða af ýmsu tagi og ættir allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Bæjarbúar og gestir geta farið í leikhús, á tónleika, myndlistarsýningar, fylgst með keppni í vaxtarrækt og fitness, farið á skíði í Hlíðarfjalli, á skauta í Skautahöllinni og í sund, svo eitthvað sé nefnt.  

Þeir sem vilja njóta tónlistar yfir páskana ættu ekki að láta stórtónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á skírdag fram hjá sér fara en þar mun hljómsveitin ásamt Kór Glerárkirkju og félögum úr Kammerkór Norðurlands flytja Gloríu eftir Vivaldi. Einnig eru á efnisskránni verkið Canon  eftir J. Pachelbel og Svíta nr. 3. í D-dúr e. J.S.Bach. Kammerkórinn Hymnodia verður með miðnæturtónleika í Akureyrarkirkju á föstudaginn langa þar sem flutt verður píslarvottatónlist eftir Pergolesi og Charpentier. Á Græna hattinum verður þétt og góð tónlistardagskrá alla páskana þar sem fram koma m.a. Guðrún Gunnarsdóttir, hljómsveitin Mannakorn og Hvanndalsbræður og á Hótel KEA verða tónleikar með  þeim félögum Stefáni Hilmarssyni og Eyjólfi Kristjánssyni.

Það verður líka nóg um að vera í leiklistinni.  Leikfélag Akureyrar sýnir Fúlar á móti og Skoppu og Skrítlu. Sýningin Opnunarhátíð Valhalla Bank er líka allrar athygli verð og rétt utan Akureyrar sýnir Freyvangsleikhúsið verkið Vínlandið og Leikfélag Hörgdæla sýnir farsann Stundum, stundum ekki. Í Listagilinu verða gallerí og Listasafnið opið auk þess sem nokkur galleríanna opna nýjar sýningar. Í Jónas Viðar Gallery opnar árleg páskasýning, í Laxdalshúsi opnar sýningin Förumenn og flakkarar, Anna Richards bæjarlistakona opnar sýningu í GalleríBOXi auk þess sem hún mun bjóða upp á konfekt fyrir augu og eyru í Ketilhúsinu. Um er að ræða djarfa tilraunastarfsemi þar sem ýmsar listgreinar mætast.

Hlíðarfjall er opið alla páskana. Þar munu gestir fjallsins geta notið aukinnar þjónustu á borð við barnapössun, tösku- og skíðageymslu og einnig verður lifandi tónlist. Skíðaíþróttin fær ekki einungis að njóta sín í Hlíðarfjalli því á föstudaginn langa verður keppt í samhliða svigi í Gilinu. Sundparadísin í Sundlaug Akureyrar er opin alla páskana og upplagt að slaka á í lauginni eftir að hafa skíðað í Hlíðarfjalli. Og ef ekki skíði þá er hægt að fara á skauta í Skautahöllinni.  
Íslandsmótið í fitness og vaxtarrækt hefst í Íþróttahöllinni á Akureyri föstudaginn langa og stendur fram á laugardag. Þá opnar Bókamarkaðurinn á Akureyri í dag, í húsnæði við hliðina á Bakaríinu við brúna. Þetta er aðeins brot af því sem hægt er að upplifa og njóta á Akureyri yfir páskahátíðina. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.visitakureyri.is

Nýjast