Miðstjórnin var sammála um að það sé viðfangsefni forystu ASÍ næstu vikurnar að ræða við fulltrúa stjórnvalda, stjórnarandstöðu og annarra samtaka á vinnumarkaði og kanna vilja til slíks samstarfs í samræmi við niðurstöðu ársfundar ASÍ. Gera má ráð fyrir að undir lok mánaðarins verði farið að skýrast hvort það tekst. Á þeim grundvelli munu aðildarfélögin taka endanlega afstöðu til mótunar sinna áherslna.
Á ársfundi ASÍ í okt. sl. voru samþykktar breytingar á lögum Alþýðusambandsins sem m.a. fólu það í sér að miðstjórn er nú kosin í heild sinni til tveggja ára á þingi Alþýðusambandsins.Í miðstjórn Alþýðusambandsins 2010-2012 sitja auk Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ og Signýjar Jóhannesdóttur, varaforseta ASÍ, eftirfarandi aðilar; Björn Snæbjörnsson frá Einingu-Iðju, Finnbjörn A. Hermannsson frá Fagfélaginu, Guðmundur Gunnarsson frá Rafiðnaðarsambandi Íslands, Guðmundur Ragnarsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir frá VR, Kristinn Örn Jóhannesson frá VR, Kristín M. Björnsdóttir frá VR, Kristján Gunnarsson frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, Óskar Kristjánsson frá VR, Sigurður Bessason frá Eflingu, Sigurrós Kristinsdóttir frá Eflingu, Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir frá Félagi verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.