„Mér sýnist staðan vera sú að allir bíði eftir að ráðinn verði verkefnisstjóri atvinnumála hjá Akureyrarbæ og ég sé ekki betur en menn leggi allt traust sitt á hann, að hann verði eins konar töframaður sem leysi öll mál,“ segir Rúnar Þór Björnsson en hann hefur starfað hjá Grasrót-Iðngörðum sem er til húsa á athafnasvæði Slippsins við Hjalteyrargötu. Rúnar Þór fór ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttir og Georg Hollandes á fund stjórnar Akureyrarstofu á dögunum til að ræða nýjar hugmyndir um framhald á starfsemi Grasrótar-Iðngarða.
Fram kemur í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu að hún vilji skoða verkefni með jákvæðu hugarfari en óskar eftir að unnin verði ítarlegri rekstraráætlun fyrir verkefnið sem og að Vinnumálastofnun taki hugmyndirnar til skoðunar áður en það verður endanlega afgreitt.Starfsemi Grasrótar hófst í byrjun síðasta árs, fyrst sem bátasmiðja en hefur síðan tekið breytingum og undanfarna mánuði hefur verið unnið að fjölbreyttu handverki, tveir smiðir voru við störf hennar vegum auk verkefnisstjóra. Þá tók Grasrót þátt í atvinnuátaki á vegum Vinnumiðlunar sem miðaði að þátttöku ungs fólks í atvinnulífinu.
„Nú er staðan sú að ekki er til peningur til að gera nokkurn skapaðan hlut, mér sýnist nýi meirihlutinn bara bíða eftir að þessi verkefnisstjóri atvinnumála verði ráðinn og að kjöfarið verði öll mál leyst,“ segir Rúnar Þór. „Starfsemin hjá okkur var mjög öflug í fyrravetur og hér var mikill fjöldi ungs fólks og mjög líflegt, en nú vitum við ekki hvað verður. Við höfum viðrað fjölda hugmynda í þá veru að bjóða ungu fólki að taka þátt í margs konar verkefnum, en eins og staðan er nú er óljóst hvort einhver starfsemi verður yfrhöfuð á okkar vegum.“
Vinnumálastofnun og Akureyrarstofa hafa greitt húsaleigu fyrir samtökin, en Rúnar Þór segir að ekki sé vitað hvort framhald verði þar á. „Þetta er allt í óvissu, ætli við verðum ekki eins og aðrir að bíða eftir þessum töframanni og sjá hvað hann dregur upp úr hatti sínum.“